Freysteinn sagði þetta í samtali við RÚV í morgun.
„Það eru áfram vísbendingar um innflæði kviku inn í þennan kvikugang sem liggur undir umbrotasvæðinu. Þess vegna þarf að vera við öllu búinn,“ segir hann og bætir við að hættumat Veðurstofunnar sé óbreytt. Brugðið geti til beggja vona þó hreyfingar hafi minnkað.
„Kvikuinnstreymið hefur stórlega minnkað frá því sem var í upphafi og er orðið miklu hægara. Ef kvika kemur upp á yfirborðið yrði það eldgos sennilega meira í takt við það sem gerðist í síðasta eldgosi við Fagradalsfjall heldur en eitthvað miklu stærra sem hefur verið í umræðunni,“ sagði Freysteinn við RÚV.
Hann segir að ekki hafi orðið merkjanlegar breytingar á dýpt skjálfta og líkön bendi til þess að kvikan sé á hálfs til eins kílómetra dýpi.