Grindvíkingar munu fá að sækja nauðsynjar í dag. Þetta var ákveðið á fundi Almannavarna og Veðurstofunnar ásamt sérfræðingum Háskóla Íslands. Talið er svigrúm til að hleypa íbúum núna en óvissan eykst svo þegar líður á daginn.
Enn er talin yfirvofandi hætta og óbreyttar líkur á eldgosi þó að verulega hafi dregið úr skjálftavirkni í nótt og morgun og innflæði kviku minnkað. Gosið gæti annað hvort hafist á landi eða sjó og ágætis möguleiki er á því að kvika komi upp í sjálfum Grindavíkurbæ, en þar undir liggur kvikugangurinn.
Þó að bærinn sé mannlaus eru bæði heitt vatn og rafmagn á flestum stöðum. En rafmagn datt úr um tíma eftir að bærinn var rýmdur í fyrrinótt.
Fundur Almannavarna með sérfræðingum hófst klukkan 9:30 í morgun og ríkisstjórnin fundar um byggingu varnargarða í hádeginu. „Við munum ekki stefna neinu lífi í hættu við þessa vinnu,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra við RÚV.
Þá er einnig verið að vinna að því að skipuleggja skólastarf fyrir börn frá Grindavík, sem eru eru dreifð um stórt svæði. Hafa Grindvíkingar verið hvattir til að gera grein fyrir staðsetningu sinni í síma 1717. Í gær var greint frá því að ekki nægilega margir hefðu gert það.