Ákveðið hefur verið að rýma Grindavík vegna hættu á eldgosi næstu klukkustundir eða sólarhring.
Mbl.is greinir frá þessu.
Almannavarnir hafa nú sett Grindavík á neyðarstig.
RÚV greinir frá því að veruleg aukning hafi orðið í virkni jarðhræringa í grennd við Grindavík í kvöld. Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í að atburðarrásin hafi verið hröð. Von er á nánari upplýsingum frá Veðurstofunni.
Víðir Reynisson flutti tilkynningu frá Almannavörnum um rýminguna á RÚV:
Víðir bað íbúa um að sýna ekki óðagot, ekki væri um bráða hættu að ræða en í öryggisskyni þætti rétt að íbúar rými hús sín og yfirgefi bæinn. Fólk mun annaðhvort gista í hjálparmiðstöðvum eða hjá vinum og ættingjum. „Þetta er ekki neyðarrýming. Íbúar Grindavíkur eru beðnir um að fara með gát,“ sagði Víðir.
Öllum íbúum er skylt að yfirgefa Grindavík.
Mikill kvikugangur á sér stað og er ekki talið útilokað að hann fari undir Grindavík.
Víðir gat ekki sagt hversu ofarlega kvikugangurinn er kominn en atburðarásin hafi verið nokkuð hröð síðustu klukkustundir. Vonast hann til að allir íbúar hafi yfirgefið bæinn um þrjúleytið í nótt.
Víðir ítrekaði að þetta væri ekki neyðarrýming og bað íbúa um að yfirgefa ekki bæinn í óðagoti heldur sýna yfirvegun.
Uppfært kl. 23:50 – Ekki hægt að segja til um hvort og hvar kvika nær til yfirborðs
Á vef Veðurstofunnar segir að miklar breytingar hafi orðið í skjáltavirkni og aflögun á Reykjanesskaga síðdegis í dag. Í tilkynningunni segir: „Skjálftavirknin hefur færst suður í átt að Grindavíkurbæ. Byggt á því hvernig skjálftavirknin hefur þróast síðan kl. 18 í dag, ásamt niðurstöðum úr GPS mælingum eru líkur á því að kvikugangur hafi teygt sig undir Grindavíkurbæ. Í ljósi þessarar niðurstöðu hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir neyðarstigi Almannavarna. Hafin er rýming Grindavíkurbæjar.“
Segir í tilkynningunni að erfitt sé að segja til um nákvæmlega hvort og hvar kvika geti náð til yfirborðsins. Vísbendingar séu um að kvika sé á hreyfingu á svæði sem liggur frá Sundhnjúgagígum í norðri í átt að Grindavík. „Magn kviku sem um ræðir er umtalsvert meira en sést hefur í stærstu kvikuinnskotunum sem urðu í tengslum við eldgosin við Fagradalsfjall. Verið er að afla frekari gagna til að reikna líkön sem gefa nákvæmari mynd af kvikuganginum. Á þessar stundu er ekki hægt að segja til um hvenær þeirri vinnu lýkur.“
DV ræddi stuttlega við Odd Frey Þorsteinsson, upplýsingafulltrúa Rauða krossins, sem hefur opnað stórar hjálparmiðstöðvar á nokkrum stöðum þar sem íbúar Grindavíkur geta látið fyrirberast. Um 80 manns voru, er þetta er ritað, komnir í hjálparmiðstöðvarnar.
Íbúar í Grindavík eru um 3.300 talsins. Oddur reiknar með að aðeins brot af þeim gisti í hjálparmiðstöðvum en pláss er fyrir alla. Allir Grindvíkingar þurfa að tilkynna brottför sína til Rauða krossins í síma 1717 og segir Oddur að aðeins mjög lítill hluti þeirra sem hafi hringt og tilkynnt sig gisti hjálparmiðstöðvarnar. Langflestir fái inni hjá vinum eða ættingjum.