fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Akureyri fylgir fordæmi Kópavogs og Garðabæjar í leikskólamálum – Sagt koma barnafólki illa

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 10. nóvember 2023 13:50

Frá Akureyri. Mynd: Auðunn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar þann 31. október síðastliðinn voru samþykktar viðamiklar breytingar á gjaldskrá leikskóla bæjarins frá og með næsta ári. Fela þær einkum í sér að leikskólavist frá klukkan 8-14 verður gjaldfrjáls en gjöld fyrir 8 tíma vist eða meira verða hækkuð en veittir verða tekjutengdir afslættir. Þessar breytingar eru svipaðar þeim sem Kópavogur hefur gert á sínum leikskólum og Garðabær stefnir einnig á sams konar breytingar. Eru breytingar af þessu tagi sagðar vera einkum í því skyni að koma til móts við styttingu vinnuvikunnar á leikskólum. Breytingarnar á Akureyri hafa vakið talsverða ónánægju og í yfirlýsingu nokkurra verkalýðssamtaka segir að breytingarnar muni koma barnafólki illa, óháð tekjum þess.

Í minnisblaði sem fylgdi tillögunni segir að teknir verði upp tekjutengdir afslættir sem reiknast eftir fjölskylduafslætti og miðist eingöngu við hjúskaparstöðu og tekjur samkvæmt skattframtali síðastliðins árs.

Í gjaldskrá þessa árs er miðað við hjúskaparstöðu og hvort foreldrar eru í námi, atvinnulausir eða öryrkjar.

Systkinaafsláttur verður óbreyttur hjá systkinum með sama lögheimili.

Í minnisblaðinu segir að við útreikning á viðmiðunarfjárhæðum vegna tekjutengingar sé horft til ýmissa þátta eins og aldurs, kyns og hjúskaparstöðu þeirra foreldra sem nú greiða leikskólagjöld, lágmarkslauna,
meðallauna, miðgildis launa og þeirra viðmiða sem Hafnarfjarðarbær notar í tekjutengingu
leikskólagjalda.

Afslátturinn nær eingöngu til leikskólagjaldsins sjálfs en ekki fæðisgjalds. Fæðisgjaldið verður hækkað um 9 prósent en samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár verður gjaldskrá bæjarins hækkuð um 9 prósent.

Afláttarþrepin eru fjögur en hæsti mögulegi afsláttur er 75 prósent en hann er í boði fyrir einstaklinga með minna en 431.000 krónur í tekjur á mánuði og fyrir sambúðarfólk með minna en samtals 646.500 krónur á mánuði. Enginn afsláttur er í boði fyrir einstaklinga með meira en 671.000 krónur á mánuði í tekjur og ekki fyrir sambúðarfólk með meira en samtals 1.006.500 krónur á mánuði.

Samkvæmt gjaldskrá komandi árs munu foreldrar barna sem verða á leikskóla 6 tíma á dag borga eingöngu fyrir fæði, 8.606 krónur á mánuði. Gjöld fyrir vist og fæði í 6,5, 7 og 7,5 tíma á dag munu lækka. Mest fyrir vist í 6 og hálfan tíma, 46 prósent. Gjöld fyrir vist og fæði í 8 tíma á dag munu hækka úr 42.439 krónum á mánuði í 44.387 krónur, sem er 5 prósent hækkun, en sömu gjöld fyrir 8 og hálfan tíma á dag hækka úr 46.348 krónum á mánuði í 52.637 krónur á mánuði sem er 13 prósent hækkun.

Sagt þrengja að barnafólki

Nokkrir bæjarfulltrúar minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn lögðu fram bókun á fundinum. Í bókuninni segir að undirbúningi sé ábótavant, samráð við foreldra ekkert og gögn takmörkuð. Gjaldskrárhækkun fyrir þau 85,2 prósent foreldra sem nýti 8-8,5 tíma á leikskólum á dag verði veruleg eða allt að 13%, auk þess sem fæðisgjald muni hækka um 9%, nema þessir foreldrar hafi tækifæri til þess að draga úr leikskóladvöl barna sinna. Leikskólar séu ákaflega mikilvæg grunnþjónusta samfélagsins sem efli þroska og velferð barna sem skipti fjölskyldur sem og atvinnulífið miklu máli.

Nokkur verkalýðssamtök á Norðurlandi hafa sent frá sér yfirlýsingu um breytingarnar þar sem lýst er andstöðu við þær. Þetta eru Byggiðn – Félag byggingamanna, Eining-Iðja, Félag málmiðnaðarmanna Akureyri, Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni, Kjölur – Stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Rafiðnaðarfélag Norðurlands og Sjómannafélag Eyjafjarðar.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Nú hefur Akureyrarbær kynnt viðamiklar og flóknar breytingar á fyrirkomulagi leikskólagjalda fyrir árið 2024. Þessi nýja gjaldskrá felur í sér sex gjaldfrjálsa tíma milli kl. 8 og 14.

Þetta útspil um gjaldfrjálsan leikskóla virðist einungis vera sjónhverfing því þjónusta sem um 95% foreldra nýta sér núna mun hækka allverulega um áramótin. Þessi útfærsla mun koma barnafólki illa, sama hvar það er staðsett í tekjustiganum.

Fólk með fasta viðveru á lægri launum með mörg börn hafa ekki sama sveigjanleika nema minnka við sig vinnu og eru konur mun líklegri til að minnka við sig starfshlutfall til að þurfa ekki að greiða fyrir viðbótartímann. Það er mikið og erfitt kjaftshögg eftir frábært kvennaverkfall að Akureyrarbær sé að pressa á konur til að vera í hlutastörfum.

Stéttarfélögin í Alþýðuhúsinu á Akureyri mótmæla því harðlega að verið sé að taka upp gjaldtöku sem stuðlar að ójafnrétti kynjanna.

Stéttarfélögin mótmæla einnig harðlega að almenn álög á bæjarbúa munu hækka um 9% um næstu áramót. Þetta er mjög vont innlegg í vaxta og verðbólguumhverfið sem við búum við í dag og hvetjum við því Akureyrarbæ til að endurhugsa þessar hækkanir og sýna ábyrgð í baráttunni við að ná niður vöxtum og verðbólgu.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“