Rússneskur dómstóll hefur gefið út handtökuskipun á tónlistarkonuna Lucy Shtein. Shtein er meðlimur hljómsveitarinnar Pussy Riot og er íslenskur ríkisborgari.
Samkvæmt rússneska ríkisfjölmiðlinum TASS er Shtein, sem er 26 ára gömul, gefið að sök að hafa dreift „falsfréttum“ um rússenska herinn. Rússar hafa hert mjög málfrelsið eftir innrásina í Úkraínu í febrúar á síðasta ári. Shtein á því von á allt að tíu ára fangelsisdómi í Rússlandi.
Skipunin var gefin út af dómara í Basmanny umdæminu í Moskvu. Rússnesk stjórnvöld hafa sett Shtein á lista yfir glæpamenn á flótta. Verði hún framseld eða komi sjálfviljug til Rússlands verður hún sett í tveggja mánaða gæsluvarðhald fyrir réttarhöld.
Ekki hefur verið gefið upp hvaða ummæli um ræðir en í febrúar greindu rússneskir ríkismiðlar frá því að Shtein hefði verið ákærð fyrir að „röng ummæli“ um rússneska herinn í Úkraínu á Twitter síðu sinni.
Rússnesk yfirvöld hafa áður sett Shtein á lista yfir glæpamenn á flótta. Það er í maí árið 2022 en ekki voru uppgefnar ástæður fyrir því.
Shtein og hljómsveitarsystir hennar og kærasta Mariia Alekhiina, sem eru rússneskar að uppruna, fengu íslenskan ríkisborgararétt í maí síðastliðnum. Þær voru á meðal 18 af 94 einstaklingum sem Alþingi samþykkti að fengju ríkisborgararétt. Þremur öðrum Rússum var synjað um ríkisborgararétt.
Meðlimir Pussy Riot hafa gagnrýnt stjórn Pútíns um langt skeið og meðal annars setið í fangelsi vegna gjörnings í kirkju árið 2012. Gagnrýnin hefur ekki minnkað eftir innrásina en þær áttuðu sig þó á því að þeim yrði ekki vært í Rússlandi eftir herta löggjöf.
Það reyndist hins vegar enginn hægðarleikur að flýja Rússland. Shtein og Alekhiina voru í nokkurs konar stofufangelsi í Moskvu en náðu að flýja yfir til Hvíta Rússlands og þaðan til Litháen eftir að hafa dulbúið sig sem matarsendla. Íslenski listamaðurinn Ragnar Kjartansson hjálpaði til við að útvega vegabréf til að komast til Litháen.
Í viðtali við Vísi í sumar sagðist Alekhiina að ríkisborgararétturinn veitti Pussy Riot frelsi og tækifæri til þess að ferðast um og halda baráttunni gangandi. Hljómsveitin hefur verið á tónleikaferðalagi um Evrópu, Bandaríkin og Ástralíu í sumar og haust.
Óvíst er hversu mikið Shtein og félagar munu dvelja á Íslandi en hér eru þær þó öruggar fyrir rússneskum lögregluyfirvöldum. Íslenskum stjórnvöldum er óheimilt að framselja eigin ríkisborgara.