Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fyrrum verslunarstjóra Krónunnar skilorðsbundið fangelsi fyrir að draga að sér fé úr versluninni. Maðurinn var verslunarstjóri útibús Krónunnar í Nóatúni. Brotin áttu sér stað yfir níu daga tímabil um áramótin 2019 og 2020. Var verslunarstjóranum gefið að sök að hafa í fjögur skipti dagana 27. desember til 4. janúar dregið að sér samtals 964.495 krónur í reiðufé. Það átti hann að hafa gert með því að taka reiðuféið úr peningaskáp sem staðsettur var í sjóðsherbergi verslunarinnar.
Kemur fram í dómnum, sem kveðinn var upp 2. nóvember, að hinn ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins né hélt uppi vörnum. Því var háttsemi hans talin sönnuð og hann því sakfelldur.
Í ljósi þess að verslunarstjórinn fyrrverandi hafði ekki gerst áður brotlegur við lög þá var refsing hans ákveðin 30 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.