Dómur var kveðinn upp í dag yfir fjórum íslenskum ungmennum á aldrinum 17 – 19 ára vegna manndrápsins á bílastæðinu við Fjarðarkaup í Hafnarfirði í apríl síðastliðnum.
Elsti karlmaðurinn, 19 ára, var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir manndrápið á Bartlomiej Kamil Bielenda. Hinir karlmennirnir fengu tveggja ára dóma. Sautján ára stúlka fékk tólf mánaða skilorðsbundinn dóm.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á fjórða tímanum í dag, dómsuppsaga sem og þinghald í málinu var lokað að kröfu verjenda sakborninga, og foreldra þeirra, vegna ungs aldur sakborninga.
Aðfaranótt föstudagsins 21. apríl fannst pólskur karlmaður látinn á bílastæði við verslunina Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Líkt og áður hefur verið greint frá í fréttum réðust drengirnir þrír gegn Bartlomiej með höggum, spörkum og hnífsstungum með þeim afleiðingum að hann lét lífið. Stúlkan tók árásina upp á síma sinn, en upptakan var lykilsönnunargagn ákæruvaldsins í málinu.
Sjá einnig: Manndráp við Fjarðarkaup – Fíkniefnaneysla leiddi til átaka ókunnugra einstaklinga og endaði með morði
Ungmennin fjögur voru handtekin, en þrjú þeirra voru undir átján ára aldri þegar manndrápið var framið.
Mun fólkið hafa sameinast í neyslu fíkniefna við borð á Íslenska rokkbarnum án þess fara leynt með neysluna. Athæfið var ekki liðið af starfsfólki staðarins sem vísaði fólkinu á dyr. Þegar út var komið mun hafa komið upp ósætti milli fólksins, sem snerist um að ungmennin hafi krafið Bartlomiej um greiðslu á þeim efnum sem hann neytti með þeim inni á barnum. Slagsmál hófust sem færðust yfir á bílastæðið við Fjarðarkaup, en stutt er þar yfir og er það gatan Hólshraun sem skilur barinn og bílastæðið að.
Farið var fram á gæsluvarðhald yfir öllum fjórum vegna málsins, stúlkan var látin laus þremur dögum síðar. Elsti karlmaðurinn, sem er orðinn lögráða og virðist af myndbandsupptöku og ákæru hafa haft sig mest í frammi við árásina, hefur setið í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði síðan. Hinir tveir, sem eru sautján ára, hafa verið vistaðir á Stuðlum.
Drengirnir þrír voru ákærðir fyrir manndráp og stúlkan fyrir brot á hjálparskyldu, en ekkert þeirra þekkti hinn látna.
Aðalmeðferð í málinu fór fram í byrjun október. Dómurinn hefur ekki verið birtur, en fjallað verður nánar um málið þegar svo verður.