Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra Íslands. birti skemmtilega mynd af móður sinni og sér í kvöld með yfirskrift um að hún hafi fengið hana til að heimsækja vinnu sína. Eins og er allt of algengt nú til dags voru neikvæðir hælbítar fljótir á vettvang og einn þeirra vildi skjóta á þá forréttindastöðu sem ráðherrann væri í.
„Það er aðeins ca 5-8% forréttindarfólks á Íslandi sem getur tekið foreldra sína með sér í vinnuna og haft það huggulegt á kosnað almennings. Hroki og mikilmennskubrjálæði einkennir meira og minna sérstaklega ráðherra ríkisstjórnarinnar,“ skrifaði viðkomandi.
Hann hafði ekki fyrr sleppt orðinu en að Þórdís Kolbrún svaraði honum fullum hálsi.
„Móðir mín keyrði til Reykjavíkur í sínum frítíma í vaktavinnu sem sjúkraliði til að taka viðtal með mér til stuðnings góðs málstaðar. En takk fyrir hlýja kveðju,“ skrifaði ráðherrann og kvað tröllið í kútinn.