Daði Kristjánsson héraðsdómari hefur hafnað því að víkja sæti í hryðjuverkamálinu svonefnda. Í málinu eru þeir Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson ákærðir annars vegar fyrir vopnlagabrot og hins vegar fyrir tilraun til hryðjuverka.
Hryðjuverkahluta ákærunnar hefur tvisvar verið vísað frá dómi í héraði en í síðara skiptið sneri Landsréttur úrskurðinum við og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið fyrir.
Ákæruvaldið gerði kröfu um að dómarinn Daði Kristjánsson viki sæti í málinu á þeim forsendum að hann hefði í frávísunarúrskurði tjá sig á þann hátt að efast mætti um hlutleysi hans í málinu.
Í tilvikum sem þessum skal dómari sjálfur meta eigið hæfi. Daði hafnaði kröfu ákæruvaldsins um að víkja sæti. Var forsenda hans sú að hann hefði í síðari frávísunarúrskurði sínum ekki tjáð sig þannig um efnishlið málsins að efast mætti með réttu um hlutleysi hans.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar í málinu, er sáttur við þessa niðurstöðu. Í samtali við DV sagði hann að niðurstaðan væri að sínu mati hárrétt, dómarinn hefði í sínum úrskurði sagt að ef ákæruvaldið gæti ekki komið frá sér ákæru sem stæðist kröfur sakamálalaga mætti e.t.v. huga að grundvelli saksóknarinnar.