Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar mun ræða um hertar netvarnir á fundi í dag eftir að brotist var inn í tölvukerfið. Ekki er vitað hvað netþrjótarnir vildu.
Innbrotið uppgötvaðist fyrir rúmlega viku síðan af starfsmönnum upplýsingafyrirtækisins Þekkingar sem sjá um tölvumálin fyrir bæinn. Sáu þeir ummerki um innbrot og gerðu þeir bæjarstjórn samstundis viðvart. Tölvuþrjótar höfðu nýtt sér bilaðan netbeini (router) sem gaf kost á leka.
„Sú leið var strax stoppuð en það er talin þörf á að setja fleiri eldvarnarveggi,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri. Þekking hafi lagt fram tillögur að hertari vörnum og verður það tekið fyrir á fundinum í dag. „Þau bentu okkur á að það er sífellt meiri ásókn í að komast inn í tölvukerfi hér og þar.“
Ekki er vitað hvort að innbrotið tókst hjá þrjótunum né heldur hver tilgangurinn með því var. Það er hvort þeir hafi ætlað að eyðileggja eitthvað eða stela einhverju. Fannar segir að ekki sé vitað hvort þeir hafi náð að valda neinum skaða.