Landris er hafið aftur á Reykjanesi og er miðja þess nú nærri Svartsengi. Greint var frá því um helgina að risið gangi talsvert hraðar fyrir sig en áður og er það líklega af völdum kvikuinnskots.
Ármann segir við Morgunblaðið að það sé aðeins tímaspursmál hvenær eldgos verða nærri mikilvægum innviðum á Reykjanesskaga og stofni þeim í hættu.
„Það er klárt að það gerist, það er bara spurning um hvenær. Þess vegna verða menn að halda áfram að undirbúa sig og hafa hlutina klára,“ er haft eftir honum.
Hann bætir við að ef gos kæmi upp nærri Svartsengi yrði það að líkindum hraungos eins og við þekkjum úr síðustu gosum nærri Fagradalsfjalli. Spurningin sé þó hversu öflug gosin geti orðið.
„Ef það verða lítil gos eins og eru búin að vera 2021 til 2023, þá höfum við sæmilegan tíma til að bregðast við og skoða málin. En það verður líka að segjast að þau gos voru óvenju smá. Þannig að við eigum von á því að það komi aðeins kröftugri gos í framtíðinni,“ segir hann við Morgunblaðið.