Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður hjá Heimildinni, hefur stefnt Páli Vilhjálmssyni og Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Reynt verður á hvort að Árvakur beri ábyrgð á ærumeiðandi ummælum á Moggablogginu.
„Ef það verður niðurstaðan að fjölmiðlalögin eigi við gæti það haft þýðingu síðar meir fyrir Árvakur varðandi hvað fólk er að skrifa inn á þetta bloggsvæði,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aðalsteins.
Aðalsteinn hefur stefnt bloggaranum Páli Vilhjálmssyni vegna á annan tug ummæla er varðar mál skipstjórans Páls Steingrímssonar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. En hinn fyrrnefndi Páll hefur sakað Aðalstein og fleiri blaðamenn um misgjörðir í því máli. Aðalsteinn gerir kröfu um miskabætur og ómerkingu ummælanna.
Árvakri er stefnt til réttargæslu en öll ummælin voru skrifuð á vefsvæðið blog.is sem rekið er af Árvakri, það er Moggabloggið svokallaða. Árvakri hefur verið boðið að gæta hagsmuna sinna í málinu en ekki eru gerðar neinar kröfur á félagið enn sem komið er. Að sögn Gunnars hefur Árvakur ekki þegið það að gæta sinna hagsmuna að svo stöddu. Ekki náðist í lögmann Árvakurs fyrir birtingu þessarar fréttar.
Eitt af álitamálunum er hvort að fjölmiðlalögin eigi við og þá hvort að Árvakur beri ábyrgð á því sem skrifað er á Moggablogginu.
„Það eru skilmálar sem gilda um þessa síðu sem Árvakur setur, meðal annars um ærumeiðingar og annað,“ segir Gunnar. „Þeir hafa ekki brugðist neitt við þó að fólk hafi verið að skrifa ærumeiðandi ummæli á þessa vefsíðu og nokkuð augljóslega brotið gegn skilmálunum. Heldur frekar hampað slíkum ummælum í Morgunblaðinu,“ segir hann og á við að vitnað hafi verið í Pál í staksteinum blaðsins til dæmis.
Í skilmálum blog.is segir:
„Notandi staðfestir og ábyrgist, að hann sé lögráða og hafi heimild til að gerast notandi á www.blog.is eða hafi heimild þar til bærra aðila til að gerast notandi á www.blog.is, þ.m.t. lögráðamanna. Hann samþykkir einnig að hann muni ekki birta efni sem brjóti gegn rétti þriðja aðila, þ.m.t. höfundarétti, vörumerkjarétti eða friðhelgi einkalífs, teljist ærumeiðandi eða ólögmætt með öðrum hætti.“
Páll Vilhjálmsson var dæmdur fyrir ærumeiðingar í garð Þórðar Snæs Júlíussonar og Arnars Þórs Ingólfssonar, ritstjóra og blaðamanns Heimildarinnar, í mars síðastliðnum. Voru tvö ummæli Páls dæmd dauð og ómerk, en þau lutu bæði að máli Páls Steingrímssonar. Páll hafði fullyrt á bloggsvæði sínu að Þórður og Arnar hefðu gerst sekir um ólöglegt athæfi og að þeir yrðu ákærðir.
Aðalsteinn var ekki hluti af því máli en ummælin eru sams konar að sögn Gunnars. „Þetta eru sambærileg ummæli og ummæli sem ganga lengra en þau sem fjallað var um í því máli,“ segir hann.