fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fréttir

Vilja kanna hvort mögulegt sé að styðja við uppsetningu sólarsella á heimilum í Reykjavík

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 3. október 2023 18:00

Myndin er samsett. Mynd af Reykjavík: Wikimedia/Andreas Tille

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgarstjórn Reykjavíkur kom saman til fundar í dag og á meðal umræðuefna á dagskrá fundarins var tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að gerð verði fýsileikakönnun á stuðningi við uppbyggingu sólarsella á heimilum í Reykjavík. Sólarsellur eru einnig þekktar undir heitinu sólarrafhlöður.

Samkvæmt tillögunni myndi borgarstjórn beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að gera slíka athugun.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni kemur fram að ef yfirvöld ætli sér að mæta yfirlýstum loftslagsmarkmiðum og standa undir orkuskiptum sé ljóst að frekari orkuöflunar sé þörf.

Eins og DV hefur áður greint frá hefur Landsnet komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguðum orkuskiptum muni seinka verði ekki farið í frekari orkuöflun innanlands.

Sjá einnig: Svartsýn spá í raforkumálum – Orkuskipti munu nást um miðja öldina og raforkuframboð verður breytilegt

Í greinargerðinni sem fylgir tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er vísað til sviðsmynda Samorku (samtök orku og veitufyrirtækja á Íslandi) en samkvæmt þeim þyrfti að byggja það sem nemur þremur Kárahnjúkavirkjunum til að ná fullum orkuskiptum í landi, sjó og lofti en þá sé ekki meðtalin áætluð orkuþörf hins almenna markaðar og stórnotenda í framtíðinni.

Því segir í greinargerðinni að til lengri tíma litið sé nauðsynlegt að huga að fjölgun virkjana sem og byggingu vindmyllugarða. Slíkum fjárfestingum fylgi þó hár stofnkostnaður og uppbygging þeirra geti tekið langan tíma. Aftur á móti hafi örar tækniframfarir í gerð sólarsella gert þær mun kröftugri, harðgerðari og hagkvæmari en áður og í krafti fjölda húsþaka megi koma uppi öflugu neti sólarsella með mikla framleiðslugetu á tiltölulega stuttum tíma.

Sólarsellur geti vel verið á við stærstu virkjanir landsins

Það sé orðið sífellt útbreiddara erlendis að yfirvöld séu með einhvers konar niðurgreiðslukerfi til að styðja við kaup íbúa á sólarsellum bæði til einkanota og til að selja framleidda umframorku aftur inn á almenn dreifikerfi. Þótt lönd eins og Kína og Þýskaland hafi lengst af verið leiðandi í slíkri orkuframleiðslu í samvinnu við almenning, verði sólarsellur sívinsælli á mun norðlægari slóðum. Norðurlöndin hafi unnið markvisst að því að hvetja íbúa til að setja upp sólarsellur á hús sín með opinberum niðurgreiðslum undanfarin ár. Norsk fyrirtæki hafi líka haslað sér völl sem framleiðendur sólarsella á alþjóðamarkaði og Noregur búi nú yfir 20.216 sólarsellum sem hafi samanlagt uppsett afl upp á 373 megawött en langflestar þessara sólarsella liggi á þökum norskra heimila og þá nokkrar saman. Haldi sú fjölgun áfram á sama hraða sé áætlað að uppsett afl Noregs nái 4.943 megawöttum fyrir árið 2028.

Í greinargerðinni eru þessar tölur um orku frá sólarsellum í Noregi settar í samhengi við það magn orku sem kemur frá íslensku virkjunum en samkvæmt greinargerðinni er uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar 690 megawött en Búrfellsvirkjunar 270 megawött.

Í greinargerðinni er tekið fram að framleiðsla rafmagns frá sólarsellum sé mismikil og
árstíðabundin. Á Norðurlöndunum sérstaklega framleiði heimilin mikla umfram orku yfir sólríkari mánuði sem þau selji inn á almenna dreifikerfið en þurfi svo meðgjöf á dimmasta tímanum. Því megi hugsa sér sólarorkuframleiðslu sem orkulind reykvískra heimila til viðbótar við orkuframleiðsluflóruna.

Í fýsileikakönnuninni þurfi m.a. að huga að því hvort einhver skipulagsatriði standi í vegi fyrir uppsetningu sólarsella á húsþökum eða í görðum, hvernig best væri að standa að samtengingu sólarsella við hið almenna orkukerfi og hvernig best væri að standa að kaupum og sölu á raforku milli heimila og orkufyrirtækja.

Í tillögu Sjálfstæðismanna og meðfylgjandi greinargerð er hins vegar ekki tekið fram hvernig nákvæmlega niðurgreiðslukerfi vegna uppsetningu sólarsella á heimilum í Reykjavík yrði fjármagnað eða hvort að slíkar niðurgreiðslur kæmu frá Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur eða annars staðar frá. Leiða má þó að því líkum að athugun á því yrði hluti af fyrirhugaðri fýsileikakönnun verði tillagan samþykkt í borgarstjórn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri