Heimsókn tælenska þingmannsins Porntip Rojanasunan í síðasta mánuði virðist ætla að draga dilk á eftir sér. Formaður þingnefndar í Tælandi hyggst senda íslensku ríkisstjórninni kvörtun vegna þess að Rojanasunan var vikið af veitingastaðnum Tokyo Sushi í Kópavogi. Þá verður yfirkokkurinn kærður.
Eins og DV greindi frá í gær var Íslandsferð þingmannsins ansi skrautleg. Bæði þurfti hún að fjarlægja ljósmynd af sér af samfélagsmiðlum þar sem hún sást velta sér upp úr viðkvæmum mosa og henni var vikið af veitingastaðnum af yfirkokknum Ara Alexander Guðjónssyni. Ari er af tælenskum ættum og rak hana út í beinni útsendingu á Facebook.
„Farðu, farðu í burt! Í burtu með þig! Þú ert spillt. Þú ert ekki velkomin hérna,“ sagði Ari við Rojanasunan en að samferðamenn Rojasunan mættu sitja áfram og borða. „Ég kenni aðeins henni um. Þið megið vera áfram. Ég sætti mig við það. En ég sætti mig ekki við það sem hún hefur gert Tælandi. Ég hata hana. Hún er rusl!“
Somchai Sawaengkarn, formaður Mannréttinda-, frelsis og neytendaverndarnefndar efri deildar tælenska þingsins, ætlar að senda íslensku ríkisstjórninni kvörtun vegna atviksins á Tokyo Sushi. Þetta kemur fram hjá fjölmiðlinum Thaiger.
Segir hann að brottreksturinn, eins og hann sást á myndbandinu, hafi verið brot á mannréttindum Rojanasunan. Hvetur hann íslensk stjórnvöld til þess að viðurkenna að framkoman gagnvart henni hafi verið óviðeigandi.
Þá mun þingnefndin einnig kæra eiganda veitingastaðarins samkvæmt tælenskum lögum. Gildir einu hvort að Rojanasunan ákveði sjálf að kæra atvikið. Að sögn Sawaengkarn gæti málið orðið fordæmisgefandi.
Rojanasunan ætlar ekki að leggja fram kæru á hendur Ara. Það kemur fram hjá Bangkok Post. Rojanasunan ræddi málið í pontu í tælenska þinginu eftir heimkomuna.
„Ég hef lent í svo mörgum svona atvikum og hatri vegna þess að við þekkjum ekki hvort annað. Ég vorkenni honum bara,“ sagði Rojanasunan.
Sagðist hún ekki hafa búist við því að umræðan um atvikið færi á slíkt flug. Hins vegar hafi atvikið verið mjög svæsið og Ari hafi rekið hana út eins og hún væri skepna.
„Ef ég hefði verið þarna lengur hefðu getað brotist út slagsmál. Hann benti á mig eins og ég væri svín eða hundur,“ sagði Rojanasunan. „Ég var ekki í áfalli eftir þetta. Ég er 69 ára gömul og hef lent í mörgum svona atvikum. Ég mun ekki kæra málið.“