Eitt umtalaðasta mál vikunnar er séra Friðrik Friðriksson, stofnandi KFUM, Hauka og Vals, og einhver dáðasti Íslendingur 20. aldarinnar eftir að bók um hann kom út í vikunni. Bókin Séra Friðrik og drengirnir hans er eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og í henni er varpað ljósi á skuggahliðar í lífi Friðriks, sérstaklega samband hans við unga drengi og hrifningu hans á þeim.
Í bókinni greinir Guðmundur frá því að maður um áttrætt hafi haft samband við sig og greint honum frá því að Friðrik hafi leitað á hann og káfað á honum þegar hann var ungur drengur.
Guðmundur var til viðtals í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV og þar segir hann vinnslu bókarinnar hafa verið óþægilega á köflum og hann hafi íhugað hreinlega að leggja verkið frá sér. Hann hafi þó afráðið að það væri hugleysi að gera það og haldið því verkefninu til streitu.
Í kjölfar útgáfu bókarinnar hefur mikil umræða skapast um hvort fjarlægja eigi tvær styttur sem eru af Friðriki í Reykjavík, önnur er lítil brjóstmynd sem stendur við Valsheimilið á Hlíðarenda og hin er „Séra Friðrik og drengurinn“ sem stendur á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu, fyrir allra augum, í miðbænum.
Sjá einnig: Séra Friðrik og drengurinn – „Meinlítil þjóð með engar styttur af ógeðskörlum“
Egill Helgason er einn þeirra sem hefur tjáð sig um málið og hvetur hann menn til að gæta stillingar og byrja á að lesa bókina:
„Viðtal mitt við Guðmund Magnússon í Kiljunni fjallaði um bók sem er 500 blaðsíður, umfjöllunarefnið er Séra Friðrik Friðriksson. Þar er gríðarlega mikið af upplýsingum enda leitaði Guðmundur í bréfa- og skjalasöfn við vinnslu bókarinnar. Upp úr þessu hefur sprottið heilmikil umræða í samfélaginu.
En ég er steinhissa á því hversu margir tjá sig án þess að hafa lesið bókina – ég hefði haldið að lestur hennar væri ákveðin forsenda á þessu stigi málsins. Að menn kynni sér málavöxtu í stað þess að stökkva fram með tal um að „alltaf hafi verið orðrómur“. Það liggur heldur ekki á að rífa niður styttu eða fá viðbrögð eða fordæmingu allra sem tengjast málinu. Séra Friðrik hefur verið í gröfinni í 62 ár en bókin kom út núna í vikunni. Lesið hana – hún er grundvöllur þessarar umræðu ekki félagsmiðlarnir eða tilfinning fyrir því að hlutirnir hafi verið svona eða hinsegin.“