Snorri Másson, sem tjáir sig á nýstofnuðum fjölmiðli sínum, ritstjori.is, veltir því fyrir sér hvort hugtakið „þriðja vaktin“ sé hugsanlega áróðursbragð markaðsafla en ekki verðugt viðfangsefni í jafnréttisbaráttunni. Hann gefur sterklega í skyn að vandamálið séu vinnustaðir sem taki alla orku frá fólki en ekki þátttökuleysi karlmanna í heimilisverkum. Í myndbandspistli sem sjá má í spilaranum hér neðst segir Snorri meðal annars:
„Þriðju vaktinni var hins vegar mótmælt opinberlega í kvennaverkfallinu, sem er smá skrýtið. Af hverju ferðu að mótmæla þessu opinberlega, talaðu bara við lata manninn þinn? Sko, auðvitað er vinna að skipuleggja fjölskyldulíf en hvað ef, bara hvað ef „þriðja vaktin“ er bara vel heppnað áróðursbragð markaðsafla sem vilja sannfæra þig um að stóra vandamálið í lífi þínu sé makinn þinn og hans hegðun frá degi til dags, en ekki bara ömurlegi vinnustaðurinn þinn sem tekur alla orkuna frá þér af því að þú þarft að mæta þangað á hverjum degi frá níu til fimm á meðan börnin þín eru geymd á stofnun og svo færðu þau pirruð í fangið og þarft svo að þrauka það sem eftir lifir dags í því andrúmslofti til þess eins að gera þetta allt strax aftur daginn eftir?
Gæti verið að vandamálið í lífi þínu sé bara að öll orkan þín sé þegar farin í tilgangslausu tölvupóstavinnuna þína, en að vandamálið sé ekki það að maðurinn þinn hafi ekki frumkvæði að því að kaupa gjöf fyrir afmæli sem er eftir tvær vikur.
Með þessu er ég alls ekki að segja að karlar mættu ekki auðvitað reyna að vera minna heimskir og tregir og ömurlegir, það er alltaf ástæða til að minna á það. En við verðum alltaf að muna að það eina sem fyrirtækin vilja er að þú haldir áfram að setja vinnuna þína í forgang, haldir áfram að mæta og haldir áfram að búa til peninga fyrir þau. Þess vegna eru þau og allir til í að gera mál úr þriðju vaktinni – það beinir athygli okkar frá alvöru vandamálum, of mikilli vinnu fyrir of lítinn ávinning, og að auðveldasta skotmarki dagsins, “illu karlmönnunum sem gera aldrei neitt á heimilinu.” Látum ekki útsmoginn sálfræðihernað sá fræjum sundrungar á heimilum landsins.“