Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að í gær, fimmtudag, hafi Björgunarsveitin Bára á Djúpavogi fengið aðstoðarbeiðni vegna smalahunds sem hafði ekki gáð nægilega að sér og sat fastur í klettum.
Björgunarfólk hafi haldið af stað inn í Hofsdal inn af Álftafirði þar sem umræddir klettar voru. Eftir nokkra göngu með klifur og sigbúnað á bakinu hafi björgunarfólk komist að hundinum og getað sett upp tryggingar fyrir ofan hann. Vel hafi gengið að síga niður til hans og hafi hann verið þeirri heimsókn afar feginn, sem og að komast í öryggi bakpoka björgunarfólks og þannig úr sjálfheldunni.
Í tilkynningunni segir að lokum að engum sögum fari hins vegar af því hvort smalavinna hundsins hafi haldið áfram að þessu loknu eða hvort hann hafi farið heim að jafna sig.