Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, mun leggja fram tillögu í borgarráði í næstu viku um að styttan „Séra Friðrik og drengurinn“ verði fjarlægð eða færð. Oddvitum annarra flokka er einnig brugðið og ekki er útilokað að styttan verði fjarlægð eða færð.
„Þetta er erfitt mál, maðurinn var aldrei dæmdur. En það er ekki hægt að hafa hana þarna. Í hvert sinn sem maður sér þessa styttu eftir þessa umræðu fær maður hníf í hjartað,“ segir Kolbrún Baldursdóttir. Hún er nú að undirbúa tillögu fyrir fund borgarráðs í næstu viku um að styttan verði fjarlægð af stalli sínum við Lækjargötu.
Þrátt fyrir að langt sé um liðið frá dauða Friðriks sé ekki hægt að blása þær frásagnir sem birtast í bók Guðmundar Magnússonar, „Séra Friðrik og drengirnir hans“, sem vakið hefur miklar umræður. Ekki síst um framtíð styttunnar sem myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson bjó til árið 1952.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar kom fram að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sé sleginn yfir málinu. Hann segir ekki útilokað að styttan verði tekin niður. Fara þurfi yfir málið í borgarráði. En engir fundir hafa verið borgarstjórn síðan málið kom upp.
„Ákvarðanir um það hvort minnismerki eða listaverk skuli standa í borgarlandinu eru ætíð teknar af yfirvegun og hljóta umfjöllun í viðeigandi ráðum Reykjavíkurborgar. Verkið var reist í kjölfar söfnunar sem efnt var til meðal almennings og gjöf KFUM og KFUK til Reykjavíkurborgar en haft var samráð við ríkið um staðsetningu verksins,“ segir Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs í svari við fyrirspurn DV.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir í svari til DV að hún hafi ekki átt þess kost að lesa bókina en endursagnir í fjölmiðlum séu vægast sagt ömurleg lesning.
„Mér finnst eðlilegt að borgarráð taki málið til umfjöllunar, en það sem gerir styttuna sérlega óþægilega er sú staðreynd að hún er ekki aðeins af séra Friðriki, heldur er þar með honum lítill drengur,“ segir Hildur.
„Við höfum ekki rætt um málið á vettvangi borgarinnar og ég hef ekki fengið ábendingar. Ég á eftir að setja mig betur inn í málið en í ljósi þess sem hefur komið fram, þá tel ég ekki að þessi stytta eigi að vera uppi,“ segir Sanna Magdalena oddviti Sósíalista.
Gríðarlega mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum um séra Friðrik og styttuna frægu. Ekki aðeins vegna þess að hún er fyrir allra augum á besta stað í miðborginni heldur einnig vegna þess hvernig hún er. Að presturinn haldi utan um ungan dreng sem er með höndina í kjöltu prestsins.
„Þetta kemur ekki á óvart. Ég held að allir hafi í rauninni vitað þetta mjög lengi. Mér hefur ævinlega þótt mjög óþægilegt að á styttu af séra Friðrik hér fyrir framan Bernhöftstorfuna sé hann einmitt að fara höndum um dreng,“ segir rithöfundurinn og blaðamaðurinn Illugi Jökulsson.
„Mér fannst þessi stytta óþægileg fyrir mörgum árum, án þess að vita neitt af hverjum hún var,“ segir samstarfskona hans hjá Heimildinni, blaðamaðurinn Erla Hlynsdóttir.
Óþægilegt er orðið sem margir nota til að lýsa styttunni eða óhugnanlegt.
„Það er ekki hægt að segja annað en að Sigurjón hafi fangað karlinn. Höggmyndin er krípí án nýjustu upplýsinga,“ segir barnabókahöfundurinn og fyrrverandi þingmaðurinn Margrét Tryggvadóttir.
Mörður Árnason íslenskufræðingi og fyrrverandi þingmanni finnst styttan óþægileg.
„Ég er nú ekki mikill slaufari — en þessi höggmynd í Bakarabrekkunni er orðin nokkuð óþægileg. Kannski setja upp viðvörunarskilti? Og þá auðvitað líka við ,,Friðrikskapellu“ hjá Vali á Hlíðarenda … Til dæmis: Varist kirkjulegt æskulýðsstarf … ?“
Kirkjufólk er ekki á einu máli um málið. Séra Sigríður Guðmarsdóttir vill láta fjarlægja hana.
„Ég vil að styttan af séra Friðrik verði tekin niður. Það er alger óþarfi að hampa honum sérstaklega og táknmál styttunnar um nàin tengsl fullorðins manns og barns er sérstaklega óþægilegt í ljósi umræðunnar,“ segir hún.
Í Kirkjublaðið skrifar séra Hreinn S. Hákonarson langa grein um málið og dregur ekki frásögn Guðmundar í efa.
„Kirkjublaðið.is spáir því að þar sem sr. Friðrik er hrokkinn af stalli muni styttan af honum í Lækjargötu verða látin víkja en hún var sett upp árið 1955. Hvað verður hins vegar um Friðrikskapellu á Valsvellinum er flóknara mál. Nafninu má að minnsta kosti breyta,“ segir Hreinn.
Séra Friðrik Schram er hins vegar á öðru máli.
„Heilindi og siðferði séra Friðriks Friðrikssonar dregið í efa í nýrri bók (Séra Friðrik og drengirnir hans). Hvernig er hægt að taka mark á svona alvarlegri ásökun frá manni sem ekki kemur fram undir nafni? Hann hefur skv aldri sótt fundi í KFUM á sama tíma og ég. Þá var sr. Friðrik hrörlegt gamalmenni. Hann var borinn upp stigana í KFUM húsinu til að tala til drengjanna. Mál hans var erfitt að skilja vegna elli. Ég á bágt með að trúa að maður í þessu ástandi hafi haft áhuga á eða getu til að áreita aðra kynferðislega. Gætum þess að trúa ekki ásökun sem þessari nema sökin verði sönnuð,“ segir hann.
Fleiri koma séra Friðriki til varnar. Til dæmis lögmaðurinn og fyrrverandi þingmaðurinn Jón Magnússon sem segist hafa reynslu af manninum.
„Annars var ég virkur í starfi KFUM frá 8 ára aldri og oft í samneyti með sr. Friðrik. Aldrei varð ég var við annað en góða hluti og hlýhug frá honum í garð okkar og ekkert rangt eða ámælisvert,“ segir Jón.
Næstum alnafni prestsins, leikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson, vill heldur ekki að styttan fari.
„Í guðana bænum látið styttuna í friði, hún verður þá í versta falli tákn um samfélag sem var og hét eins og styttur af Lenin og Stalin. Ég var í uppáhaldi hjá nafna mínum og kannast ekkert við káf og þukl. Hann gaf mér alltaf maltöl að drekka og bað mig að benda á mynd af afa mínum sem var þar í bókahillu. Þeir voru miklir vinir þrátt fyrir að afi minn séra Bjarni Hjaltesteð væri á móti KFUM og bindindishreyfingunni sem var líka hluti af KFUM,“ segir Friðrik.