Ný ævisaga um séra Friðrik Friðriksson, stofnanda KFUM, Hauka og Vals, og einhvern dáðasta Íslending 20. aldarinnar hefur vakið nokkra athygli fyrir að varpa ljósi á skuggahliðar í lífi hans. Sérstaklega samband hans við unga drengi og hrifningu hans á þeim. Er meðal annars greint frá því að maður um áttrætt hafi haft samband við höfund bókarinnar, Guðmund Magnússon, sagnfræðing, og greint honum frá því að Friðrik hafi leitað á hann og káfað á honum þegar hann var ungur drengur.
Guðmundur var til viðtals í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV og þar segir hann vinnslu bókarinnar hafa verið óþægilega á köflum og hann hafi íhugað hreinlega að leggja verkið frá sér. Hann hafi þó afráðið að það væri hugleysi að gera það og haldið því verkefninu til streitu.
Segir Guðmundur að bréfaskriftir séra Friðriks til Eggerts Cleassen hafi kveikt áhuga hans enda beri þau keim af ástarbréfa. Þá hafi endurminningar hans einnig verið á leið að Guðmund hafi rekið í rogastans og hann orðið hissa á að þær hafi ekki vakið meiri athygli.
Talsverð umræða hefur skapast um málið á samfélagsmiðlum eftir þáttinn. Þáttarstjórnandinn, Egill Helgason, deildi viðtalinu meðal annars á Facebook-síðu sína þar sem hann greinir frá því að á æskuheimili sínu hafi séra Friðrik verið álitinn nánast helgur maður.
„Þannig að lestur bókar Guðmundar Magnússonar og viðtaið tók á mig. En ég sé ekki betur en að bókarhöfundur hafi nálgast viðfangsefnið af heiðarleika. Vissulega vandmeðfarið eins og hann segir,“ skrifar Egill og hefur þar með fjörlegar umræður.
„Þetta kemur ekki á óvart. Ég held að allir hafi í rauninni vitað þetta mjög lengi. Mér hefur ævinlega þótt mjög óþægilegt að á styttu af séra Friðrik hér fyrir framan Bernhöftstorfuna sé hann einmitt að fara höndum um dreng,“ skrifar fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson meðal annars.
Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor í nýbókmenntum við Háskóla Íslands, er ein þeirra sem tjáir sig um málið. Hún rifjar upp grein sem hún skrifaði fyrir rúmum áratug í í menningartímaritið Spássíuna þar sem hún fjallaði um skáldsöguna Sölva eftir séra Friðrik sem kom út 1947-1948. Sögulega skáldsögu sem að hennar mati fjallar mjög augljóslega um ástir karla og hómóerótík, allavega með augum nútímafólks.
Segir Ásta Kristín að hún hafi þurft að tóna sig verulega niður þegar kom að Friðriki sjálfum, því hún hafi viljað, sem grandvar bókmenntafræðingur, forðast að draga ályktanir um höfundinn sjálfan og ævi hans út frá skáldverki. Í þeim anda voru lokaorð greinarinnar skrifuð og hljóðuð svo.
„Þó skal tekið fram að ekkert bendir heldur til þess að Friðrik hafi átt í kynferðislegu sambandi við neinn af drengjunum sem hann starfaði með [í KFUM]. Kannski var séra Friðrik samkynhneigður, kannski ekki, og mögulega vissi hann ekki af því – en áhugi hans virðist í það minnsta hafa legið hjá körlum fremur en konum og það birtist afar skýrt í skáldsögunni um Sölva.“
Útskýrir Ásta Kristín svo hvað lá að baki þessum orðum.
„Meðal okkar sem höfum skoðað íslenska hinsegin sögu hefur lengi verið „vitað“, í þeim takmarkaða skilningi sem við getum vitað nokkuð fyrir víst, að það var eitthvað meira en bara æskulýðsandi á bak við ást séra Friðriks á drengjum. Það skín í gegnum skrif hans, það heyrist á sögusögnum héðan og þaðan, það kallar á mann þegar maður horfir á styttuna af honum og drengnum við Lækjargötu í miðborg Reykjavíkur. En þetta er viðkvæmt efni sem erfitt er að nálgast. Ekki síst af því að þarna mætast fyrirbærin barnagirnd og samkynja ástir — svið sem við teljum okkur geta aðskilið skýrt í dag en runnu að miklu leyti saman fyrir 100 árum síðan. Þarna er því í hugum margra mikilvægt að hafa vel rökstuddar heimildir áður en nokkuð er sagt — heimildir sem enginn í mínum kreðsum vissi af fyrir áratug síðan.“
Nú séu hinsvegar þau tímamót að komnar eru fram heimildir með hinu nýja verki.
„Ég er ekki búin að lesa bók Guðmundar Magnússonar um séra Friðrik og drengina hans en það mun ég gera fyrr en síðar. Það verður áhugavert að sjá hvernig samfélagið, sagnfræðingar, Reykjavíkurborg og ekki síst þjóðkirkjan, KFUM og Valur bregðast við þessum tíðindum. Er kannski kominn tími til að setja spurningamerki við þá botnlausu upphafningu sem þessi maður hefur fengið í heila öld?“