Umræða hefur skapast um hvort að styttan „Séra Friðrik og drengurinn“ sé orðin óviðeigandi eftir að greint var frá káfi séra Friðriks Friðrikssonar á ungum dreng í gær. Að sögn listamanna hafa nýjar tengingar myndast en engin fordæmi eru fyrir því að styttur séu teknar niður eins og erlendis.
„Við Íslendingar erum svo friðsöm og meinlítil þjóð að við höfum engar styttur af ógeðskörlum sem okkur gæti dottið í hug að taka niður,“ sagði fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason á bloggi sínu árið 2017. Tilefnið voru heitar deilur í Bandaríkjunum um hvort styttur af herforingjum úr þrælastríðinu ættu að fá að standa óhaggaðar eða hvort ætti að rífa þær niður.
Í gær var í Kiljunni sýnt viðtal Egils við Guðmund Magnússon sem skrifaði ævisögu séra Friðriks Friðrikssonar. Þar koma í fyrsta sinn fram upplýsingar um kynferðisbrot hans og undarlegur áhugi á ungum drengjum. En lengi hefur hann verið settur á stall sem helsti frumkvöðull æskulýðsstarfs á Íslandi.
Af Friðriki standa tvær styttur í Reykjavík. Önnur er lítil brjóstmynd sem stendur við Valsheimilið á Hlíðarenda. Hin er „Séra Friðrik og drengurinn“ sem stendur á besta stað í bænum, á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu, fyrir allra augum.
Sú stytta, sem myndhöggvarinn Sigurjón Ólafsson gerði árið 1952, gæti hins vegar verið sérstaklega óviðeigandi núna vegna þess að á henni sést séra Friðrik snerta lítinn dreng.
„Það er ekkert óviðeigandi að gera styttu af stofnanda KFUM með dreng á hnjánum. Hún verður aðeins óviðeigandi þegar þessar nýju upplýsingar koma fram um hann. Allt í einu byrjar ný tenging,“ segir Goddur, Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands. „Það er eftir frásögn af því að hann hafi verið að kukla í strákum eða misnota stráka sem myndin fær nýja merkingu.“
Goddur nefnir að erlendis hafi styttur af til dæmis Stalín og Saddam Hussein verið felldar. Menn sem eitt sinn voru hafnir upp á stall en skyndilega hafi álitið á þeim breyst.
„Styttur eru reistar og felldar eftir því í hvaða ljósi þær eru séðar,“ segir Goddur.
Aðspurður segist hann ekki eiga von á því að styttan af séra Friðriki verði felld. Óvíst er hversu lengi þessi umræða um hann muni loga í ljósi þess hversu langt er síðan þetta gerðist en Friðrik lést árið 1961, þá háaldraður.
Sjálfur segist Goddur þola að hafa styttuna þarna. Saga Friðriks eigi margar hliðar og það þurfi ekki að stunda hreinsanir á henni.
Hann segir hins vegar að sumir hafi meiri tilfinningu gagnvart þessu en aðrir. Myndir hafi það, fram yfir texta og hljóð, að fara beint í undirmeðvitundina og magann. Fólk finni það í maganum, kviðdómnum, hvort hlutir séu réttir eða rangir áður en það fari að hugsa um þá vitsmunalega.
Logi Bjarnason, formaður Myndhöggvarafélagsins, segir að Sigurjón hafi ekki verið í félaginu og málið myndi ekki rata inn á þeirra borð. Félagið hafi ekki skoðun á því hvort að styttan „Séra Friðrik og drengurinn“ sé óviðeigandi eða ekki.
Hann segir að þegar um málverk sé að ræða sé auðvelt að færa þau eða setja í geymslu. Það sé erfiðara með styttur og stór útilistaverk.
Logi segist ekki muna eftir neinu tilfelli á Íslandi þar sem yfirvöld hafi tekið niður styttu. „Það hefur ekkert þannig verið gert hér. Enda erum við mjög meðvirk þjóð,“ segir hann kíminn.
Borgarar hafa hins vegar tekið málin í sínar hendur. Til dæmis þegar styttan „Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku“, af Guðríði Þorbjarnardóttur, var tekin niður á Laugarbakka á Snæfellsnesi á síðasta ári og komið fyrir við Nýlistasafnið. En þjófunum þótti styttan bera merki kynþáttahaturs. Einnig þegar „Hafmeyjan“ á Reykjavíkurtjörn eftir Nínu Sæmundsson var sprengd upp á nýársnótt árið 1960.
Að sögn Loga er það sem næst kemst því að stjórnvöld taki niður styttu er þegar uppsetning styttu af rapparanum Kanye West við Vesturbæjarlaug var stöðvuð. En sú tillaga hafði hlotið flest atkvæði í íbúakosningum.
„Pólitíkusarnir vildu hana ekki og kannski sem betur fer,“ segir Logi.
Hvað styttuna af séra Friðriki varðar vísar Logi til lokaritgerðar sinnar í kennslufræði sem fjallaði um mistök. „Mistök eru ekki tengd tímanum. Eitthvað sem er frábært í dag getur verið mistök á morgun,“ segir hann.