Regnboganum, félaginu að baki R-listanum hefur verið slitið formlega. Er það eitt af þeim tugum félaga sem nýlega var slitið með úrskurði héraðsdóms á grundvelli laga um skráningu raunverulegra eigenda.
Þetta kemur fram í tilkynningu Ríkisskattstjóra í dag.
R-listinn, eða Reykjavíkurlistinn, var stofnaður fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 1994 og vann stórsigur. Að honum stóðu Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Framsóknarflokkur og Kvennalistinn með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem borgarstjóraefni.
Listinn hlaut 53 prósent atkvæða í kosningunum og felldi meirihluta Sjálfstæðismanna sem hafði setið í tólf ár og í raun stjórnað Reykjavíkurborg í marga áratugi.
Segja má að vatnaskil hafi orðið í stjórnmálum Reykjavíkurborgar með tilkomu R-listans því Sjálfstæðisflokkurinn hefur oftast nær verið í minnihluta síðan hann var stofnaður.
R-listinn bauð aftur fram í kosningunum árið 1998 og 2002 og fékk nær óbreytt fylgi, um 53 prósent og 8 af 15 fulltrúum kjörna. Ingibjörg Sólrún var borgarstjóri til ársins 2003 þegar Þórólfur Árnason og síðan Steinunn Valdís Óskarsdóttir tóku við.
Í tíð R-listans riðlaðist flokkakerfið á vinstri vængnum. Samfylkingin og Vinstri græn tóku við af Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi, Þjóðvaki kom og fór og Kvennalistinn bara fór. Framsóknarflokkurinn var eini flokkurinn sem var óbreyttur fyrir og eftir R-listann.