Lögreglan á Austurlandi hefur hætt rannsókn á dauða tólf vetra hestsins Snæfinns frá Finnsstaðakoti. Bráðabirgðarannsókn sýnir að hesturinn hafi ekki verið skotinn eins og grunur lék á um.
„Hann var ekki skotinn. Það er það sem liggur fyrir. Þar með líkur okkar rannsókn,“ segir Hjalti Bergmann Axelsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Austurlandi.
DV og fleiri miðlar greindu frá dauða hestsins á þriðjudag. Hann fannst um helgina í girðingu með öðrum hestum í landi Glúmsstaða í Eiðaþinghá. Eigendum og umráðamanni var mjög brugðið og vissu ekki við hverju þau ættu að búast. Útlit var fyrir að hesturinn hefði verið skotinn með riffli undir herðablaðið.
Hjalti segir staðfest að sárið sé ekki eftir byssukúlu. Hugsanlega sé það eftir annað dýr. Ekki sé hins vegar vitað hvað olli dauða hestsins. Verið sé að bíða eftir endanlegri skýrslu frá dýralækni Matvælastofnunar.