Tveir ungir piltar hafa verið ákærðir fyrir ofbeldi og hnífaárásir á Akranesi og Borgarnesi. Annar þeirra er ákærður fyrir að hafa haldið hnífi upp að hálsi pilts við grunnskólann á Borgarnesi.
RÚV sagði fyrst frá.
Aldur piltanna er ekki uppgefinn í ákæru en sumir gerenda og brotaþola eru undir 18 ára aldri. Í ákærunni eru tíundaðar árásir sem piltarnir tveir eiga að hafa framið bæði saman og í sitt hvoru lagi á Akranesi og Borgarnesi.
Saman hafi þeir veist að ungum manni við Jaðarsbraut á Akranesi í júlí á síðasta ári. Annar piltanna hafi slegið manninn tvisvar í höfuðið með glerflösku en hinn kýlt hann fjórum sinnum í andlit.
Annar piltanna er sakaður um að hafa kýlt mann fyrir utan Gamla Kaupfélagið á Akranesi í september á síðasta ári. Sá fékk heilahristing og eymsli við að bíta saman tönnum.
Sá piltur er einni sakaður um að hafa haldið hnífi við háls pilts við grunnskólann á Borgarnesi í apríl í fyrra. Að sögn saksóknara óttaðist brotaþoli um líf sitt.
Hann er einnig ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni. Það er að hafa hrint lögreglumanni, sparkað tvisvar í andlit hans í lögreglubíl og í klof hans á lögreglustöðinni. Þá hafi hann einnig hótað lögreglumönnum ofbeldi og lífláti.
Hinn pilturinn er sakaður um að hafa kýlt mann við skemmtistaðinn Útgerðina á Akranesi í október á síðasta ári. Brotaþoli hlaut mar og skurð undir auga.