fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Hafnarfjörður mátti neita að greiða fyrir máltíðir grunnskólabarns

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 25. október 2023 16:00

Ráðhús Hafnarfjarðar/Mynd: Ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag var á heimasíðu Stjórnarráðsins birtur úrskurður sem kveðinn var upp í mennta- og barnamálaráðuneytinu 1. október síðastliðinn.

Úrskurðurinn snýr að kæru foreldra, sem dagsett var 9. júní 2020, vegna ákvörðunar Hafnarfjarðarbæjar um að synja þeim „um greiðslu matarkostnaðar grunnskólabarns þeirra á meðan samkomubann varði“. Ráðuneytið tók hins vegar ekki undir kæruna og staðfesti ákvörðun bæjarins.

Kærendur gerðu þá kröfu að Hafnarfjarðarbær greiddi matarkostnað grunnskólabarns þeirra, sem var nemandi í einkareknum grunnskóla í sveitarfélaginu, vegna samkomubanns sem komið var á vegna útbreiðslu Covid-19 farsóttarinnar, með sama hætti og sveitarfélagið greiddi matarkostnað þeirra grunnskólabarna sem gengu í skóla sem reknir eru af sveitarfélaginu, frá 16. mars til 4. maí 2020.

Í úrskurðinum segir um málsatvik að á þeim tíma sem atvik áttu sér stað hafi barnið barnið átt lögheimili í Hafnarfirði og stundað nám í sjálfstætt reknum grunnskóla sem er með þjónustusamning við Hafnarfjarðarbæ.

Samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafi leitt til röskunar á skólastarfi í grunnskólum. Í því hafi falist meðal annars að nemendum var hópaskipt og skólastarf skert. Vegna þessarar röskunar á skólastarfi frá 16. mars til 4. maí 2020 hafi Hafnarfjarðarbær ákveðið að breyta fyrirkomulagi skólamáltíða í grunnskólum sem sveitarfélagið rekur. Hafi þessar breytingar í meginatriðum falist í því að mötuneytum skólanna var lokað og tekin var upp „neyðarþjónusta á mat“ sem öllum nemendum skólanna stóð til boða án greiðslu en bannað var að taka með nesti í skólana.

Á þeim tíma sem þessar breytingar voru gerðar hafi Hafnarfjarðarbær verið með samning við fyrirtæki  um framreiðslu skólamáltíða í öllum grunnskólum sem reknir eru af Hafnarfjarðarbæ, nema einum. Breytingin á fyrirkomulagi skólamáltíða í samkomubanninu hafi verið tekin í samráði við fyrirtækið. Jafnframt hafi verið ákveðið að foreldrar, sem greitt höfðu fyrirfram fyrir skólamáltíðir í mars 2020 gætu tekið út þær máltíðir sem féllu niður vegna þessara ráðstafana síðar á skólaárinu án greiðslu.

Með tölvupósti 8. júní 2020 hafi foreldrarnir sem lögðu fram kæruna farið fram á það við Hafnarfjarðarbæ að sama fyrirkomulag myndi gilda fyrir barn þeirra. Með tölvupósti, 9. júní 2020 hafi Hafnarfjarðarbær synjað beiðni þeirra. Kærðu foreldrarnir ákvörðunina fyrst til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, nú innviðaráðuneytið, en eftir álit Umboðsmanns Alþingis var kærunni vísað til mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Sögðu um mismunun að ræða

Samkvæmt úrskurðinum byggði kæran einkum á því að Hafnarfjarðarbær hefði brotið gegn janfræðisreglu stjórnsýslulaga. Var í henni einnig vísað til þess að samningssamband milli foreldra og fyrirtækis sem sæi barni þeirra fyrir mat á skólatíma, gegn greiðslu, hefði ekkert með það að gera hvort viðkomandi grunnskóli væri einkarekinn. Slíkir skólar hefðu sætt sömu takmörkunum vegna heimsfaraldursins. Það hefði falið í sér mismunun að Hafnarfjarðarbær hefði greitt alfarið fyrir mat barna í skólum sem sveitarfélagið rekur en ekki í einkareknum skólum. Samningur Hafnarfjarðar við rekstraraðila sjálfstæðs skóla leysi sveitarfélagið ekki undan skyldum til að gæta jafnræðis gagnvart börnum sem stunda nám við þann skóla.

Í úrskurðinum kemur einnig fram að mótrök Hafnarfjarðar voru meðal annars þau að sveitarfélagið greiði rekstrarstyrk til skólans sem barnið gekk í samræmi við þjónustusamning en komi að öðru leyti ekki að rekstri hans. Um sé að ræða sjálfstætt starfandi skóla með frjálsa heimild til þess að innheimta skólagjöld og annan kostnað vegna rekstrar síns, þar á meðal vegna matar, á grundvelli laga um grunnskóla og þjónustusamningsins. Hafnaði bærinn því að hafa brotið jafnræðisreglur. Aðstæður í faraldrinum hafi verið fordæmalausar og bærinn hafi tekið þá ákvörðun að útvega öllum nemendum í grunnskólum sem sveitarfélagið rekur sjálft máltíðir, á umræddu tímabili 16. mars til 4. maí 2020, þar sem ekki hafi verið hægt að framreiða mat með hefðbundnum hætti og heldur ekki hægt að veita þeim nemendum sem komu með nesti aðstöðu.

Í niðurstöðu mennta-og barnamálaráðuneytins segir að skýrt sé að það hafi verið ákvörðun foreldranna að barnið skyldi stunda nám í hinum sjálfstætt rekna grunnskóla.

Enn fremur segir að samkvæmt lögum um grunnskóla eigi nemendur rétt á því að fá málsverði á skólatíma en sveitarfélög hafi heimild til að taka gjald fyrir. Umræddur skóli hafi samkvæmt þjónustusamningi við Hafnarfjarðarbæ haft heimild til gjaldtöku fyrir skólamáltíðir og að ekki verði annað séð en að skólinn hafi útvegað barninu máltíð á skólatíma samkvæmt gjaldskrá. Er það niðurstaða ráðuneytisins að, með vísan til grunnskólalaga, verði að líta svo á að gjaldheimta vegna skólamáltíða í skólum sem Hafnarfjarðarbær rekur sé ekki sambærileg í lagalegu tilliti og gjaldheimta vegna skólamáltíða í sjálfstætt reknum skólum sem sveitarfélagið er með þjónustusamning við.

Ennfremur gildi sérstakar lagareglur um þjónustusamninga sveitarfélaga við sjálfstætt rekna grunnskóla.

Ráðuneytið segir að ekki hafi verið um mismunun að ræða og ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar hafi verið málefnaleg og tengist frjálsu vali foreldranna um hvaða skóla barn þeirra sótti. Skóli barnsins hafi hvorki verið bundinn af útfærslu Hafnarfjarðabæjar á skerðingu skólastarfs né af útfærslu bæjarins á skólamáltíðum á meðan samkomutakmörkunum stóð á umræddu tímabili.

Hafnarfjarðarbæ hafi verið heimilt að áveða að skólamáltíðir í grunnskólum sem sveitarfélagið rak á umræddu tímabili yrðu gjaldfrjálsar og það hafi ekki falið í sér ólögmæta mismunun að gera ekki sambærilegar ráðstafanir gagnvart nemendum sjálfstætt rekinna grunnskóla í sveitarfélaginu.

Ráðuneytið staðfesti því ákvörðun bæjarins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Krafan um bann við laxeldi er krafa um að svipta fólki vinnunni, voninni og eignunum“

„Krafan um bann við laxeldi er krafa um að svipta fólki vinnunni, voninni og eignunum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri pirraður á því hvernig RÚV talar um Miðflokkinn

Snorri pirraður á því hvernig RÚV talar um Miðflokkinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk

Þórhallur sendi Íslandsbanka bréf vegna vaxtahækkunarinnar – Þetta er svarið sem hann fékk
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl