Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni mun ný brú yfir Þorskafjörð opna á morgun, 25. október, kl. 14.00.
Í tilkynningunni segir að með þverun Þorskafjarðar styttist Vestfjarðarvegur um 10 kílómetra. Enn fremur er sérstaklega tekið fram að framkvæmdin sé átta mánuðum á undan áætlun.
Samkvæmt tilkynningunni munu Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps opna brúnna.
Jóhanna Ösp Einarsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og íbúi í Gufudal mun síðan fara ríðandi yfir brúnna með fjölskyldu sinni. Í tilkynningunni segir að fáir séu fegnari framkvæmdum við Vestfjarðarveg um Gufudalssveit en barnafólk á svæðinu sem sjái nú fram á að skólabíllinn geti ekið láglendisvegi í stað víðsjárverðra fjallvega.