fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Sýknaður af kynferðislegri áreitni í sumarbústað

Ritstjórn DV
Mánudaginn 23. október 2023 14:30

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 20. október síðastliðinn var kveðinn upp dómur, í Héraðsdómi Reykjavíkur, í máli þar sem karlmaður var ákærður fyrir að hafa að morgni sunnudags árið 2020, í sumarbústað, lagst upp í rúm við hlið konu, sem þar var sofandi, farið undir sæng hennar, tekið utan um hana, strokið rass hennar utan klæða, kysst háls hennar, reynt að taka upp bol hennar og togað hana til sín þegar hún reyndi að komast undan. Maðurinn var sýknaður af ákærunni einkum vegna þess að framburðir vitna þóttu ekki renna nægilega traustum stoðum undir sekt hans.

Í dómnum segir að þegar lögreglunni barst tilkynning um meint kynferðisbrot hins ákærða hafi hún rætt við brotaþolann. Konan sagðist hafa verið í sumarbústaðnum til að skemmta sér með vinum sínum. Hún hefði sofið í hjónarúmi í svefnherbergi ásamt nokkrum þeirra. Hefði hún vaknað við að maðurinn hefði verið að þukla maga hennar, rass og brjóst og kysst hana gegn vilja hennar. Hefði hún reynt að standa á fætur og fara burtu frá honum en ákærði þá tekið í höndina á henni og togað hana aftur í rúmið. Sagði konan að ákærði hefði verið að nota kókaín þetta kvöld og verið utan í öllum konunum í hópnum og sýnt af sér lostugt athæfi gagnvart þeim áður en hann braut á henni.

Konan segir að vinur hennar sem hafi sofið í umræddu herbergi hafi orðið vitni að hluta atburðarásarinnar og vísað í kjölfarið manninum út sem hafi orðið við því. Konan, sem sagðist hafa verið ölvuð, var ekki viss hversu lengi maðurinn hefði verið að þukla hana áður en hún vaknaði.

Lögreglan ræddi við manninn árið 2021 en hann sagðist hafa farið í inn í herbergið þar sem honum hefði verið kalt þar sem hann svaf í sófa í stofu bústaðarins. Hann hafi lagst í hjónarúmið þar sem hann hefði séð laust pláss. Honum hefði verið vísað út eftir einhvern tíma og hann hlýtt því. Maðurinn neitaði því staðfastlega að hafa brotið kynferðislega á konunni á nokkurn hátt.

Greind með áfallastreituröskun

Samkvæmt vottorði sálfræðings uppfyllti brotaþolinn greiningarskilmerki fyrir áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots. Konan hefði hins vegar nú náð fullum bata og uppfyllti ekki lengur greiningarskilmerki fyrir áfallastreituröskun.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði ekki hitt konuna áður en partýið var haldið í sumarbústaðnum. Hann sagðist hafa komið af fjöllum þegar kynferðisbrot hefði verið borið upp á hann. Sagði maðurinn meðal annars að kærasti konunnar hefði ásakað hann um nauðgun. Hann viðurkenndi þó að nærvera hans í rúminu hefði valdið konunni óþægindum og það þætti honum leitt.

Konan hélt fast við framburð sinn fyrir dómi. Hún bætti því við að maðurinn hefði þrýst kynfærum sínum að rassi hennar og hefði hún skammast sín fyrir það og því ekki minnst á það í skýrslutöku hjá lögreglu. Sagðist hún vita hvernig þessi tilfinning væri og hafa fundið fyrir þessu. Hún hefði ekki getað komið þessu út úr sér þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu.

Nokkur vitni komu fyrir dóminn og í niðurstöðu hans segir að framburður þeirra staðfesti þau orð ákærða að dimmt hafi verið í herberginu. Í niðurstöðunni segir einnig að ósannað sé að hinn ákærði hafi notað ljós í farsíma sínum þegar hann var að koma sér fyrir í rúminu.

Dómurinn sagði framburð konunnar trúverðugan og skýringar hennar á því af hverju hún hefði ekki tjáð lögreglunni að maðurinn hefði þrýst kynfærum sínum að rassi hennar væru fullnægjandi.

Í niðurstöðunni segir einnig að í framburði sálfræðingsins sem sagði konuna hafa verið með áfallastreituröskun sem rakin var til háttsemi mannsins hafi fram komið að með mati hans verði þó ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti hversu langt ákærði hafi gengið umrætt sinn til að valda þessum afleiðingum.

Þar segir enn fremur að framburður vitna um staðsetningu hins ákærða í rúminu hafi ýtt frekari stoðum undir framburð hans. Enn fremur kemur fram að vitnunum bar ekki saman um atburðarás og aðstæður eða staðsetningu ákærða og brotaþola. Einnig voru þessir framburðir sagðir í andstöðu við framburð brotaþola um að hún hafi verið að biðja ákærða um að hætta þangað til vinur hennar og eitt vitnanna í málinu rak hann út og að ákærði hafi haldið henni niðri en sá framburður kunni þó að skýrast af því að ákærði hafi legið á henni.

Samkvæmt framburðum vitna sé ekki hægt að útiloka að ákærði hafi verið sofandi og hafi verið vakinn þegar hann var rekinn út eins og hann bar um. Framburður brotaþola um atvik hafi verið skýr og trúverðugur og aðstæður í samræmi við lýsingu hennar en það eigi einnig við um framburð ákærða. Þau vitni sem komu fyrir dóminn hafi ekki getað borið um ætluð brot ákærða.

Þar af leiðandi séu ekki fram komin gögn til stuðnings þeim framburði brotaþola að ákærði hafi brotið gegn henni.

Í niðurstöðunni segir að í málinu liggi í meginatriðum fyrir orð brotaþolans gegn orðum ákærða. Verði sá síðarnefndi að njóta vafans sem uppi sé um sekt hans. Maðurinn var því sýknaður.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvö bandarísk börn, 8 og 9 ára, fundust á Íslandi – Saknað síðan í október

Tvö bandarísk börn, 8 og 9 ára, fundust á Íslandi – Saknað síðan í október