Japanskir fréttamiðlar hafa birt myndbönd af árás og handtöku Íslendingsins á leigubílstjórann í Osaka í Japan. Bílstjórinn höfuðkúpubrotnaði undir báðum augnatóftum.
DV greindi frá því morgun að 24 ára gamall Íslendingur hefði verið handtekinn í Osaka vegna gruns um að hafa lamið 59 ára gamlan leigubílstjóra. Það var Japan Today sem greindi frá málinu ytra.
Maðurinn fór í bílinn klukkan 10:30 að morgni þriðjudags í síðustu viku. Þegar á leiðarenda var komið neitaði hann að borga upphæðina, 3.000 yen eða um 2.800 krónur.
Þegar hann ætlaði í burtu án þess að borga reyndi bílstjórinn að stoppa hann með áðurnefndum afleiðingum. Hljóp hann á brott en var handsamaður af lögreglu.
Í myndböndunum, sem sýnd hafa verið í japönskum fréttamiðlum, sést maðurinn lemja bílstjórann og hrifsa af honum gleraugun. En ekki er ljóst hvort að öll upptakan er sýnd. Gengur hann svo burt, sýnir örninn á báðum höndum og hrópar að bílstjóranum.
Lögreglan hefur notað myndbandsupptökur úr leigubílnum sjálfum og frá nálægum götuhornum til að rannsaka málið. Maðurinn hefur ekki viljað tjá sig við lögreglu.