Lögreglan í Osaka í Japan handtók 24 ára Íslending þar í borg á dögunum vegna gruns um að hafa ráðist á 59 ára gamlan leigubílstjóra.
Japan Today greinir frá þessu en maðurinn er sagður hafa neitað að greiða fyrir farið áður en hann réðst á bílstjórann.
Í fréttinni kemur fram að hinn grunaði hafi farið inn í bílinn í Kita-ku hverfinu í Osaka klukkan 10:30 að morgni þriðjudags í síðustu viku. Þegar á leiðarenda var komið er maðurinn sagður hafa neitað að greiða fyrir farið en upphæðin nam þrjú þúsund jenum, tæpum 2.800 krónum.
Maðurinn er sagður hafa farið út úr leigubílnum og bílstjórinn á eftir honum. Endaði það með því að Íslendingurinn veitti bílstjóranum nokkur hnefahögg í andlitið áður en hann hljóp í burtu.
Lögreglu tókst að hafa hendur í hári mannsins eftir að hafa skoðað eftirlitsmyndavélar á svæðinu og eftir að hafa rætt við annan leigubílstjóra sem maðurinn átti viðskipti við. Var Íslendingurinn handtekinn á laugardag.