Bláa lónið er á meðal þeirra tíu ferðamannastaða í heiminum sem ferðamenn telja vera of dýra. Upptökuver Harry Potter kvikmyndanna í London er sá staður sem flestir telja of dýran.
Listinn var gerður af bandaríska fyrirtækinu SavingsSpot og byggður á greiningu umsagna frá TripAdvisor. Greint var í hversu mörg skipti orðið dýrt kom fram í tengslum við aðgangsmiða, bílastæði og mat og drykk á helstu ferðamannastöðum heimsins. Svo sem söfnum, náttúruminjum og skemmtigörðum.
Bláa lónið á Íslandi hafnaði í sjöunda sæti á listanum með samanlagt 3.139 umsagnir um að staðurinn sé of dýr. Þetta var eini íslenski ferðamannastaðurinn sem komst á listann. Samkvæmt heimasíðu Bláa lónsins er aðgangur frá 8.990 krónum, en þá fær maður aðgang að lóninu, kísilmaska, afnot af handklæði og einn drykk á Lónsbarnum.
Áberandi flestir töldu Harry Potter upptökuverið í London á vegum Warner Bros, The Making of Harry Potter, vera of dýran stað, eða 8.283. Ódýrasti miðinn fyrir fullorðna kostar 53,5 pund, eða rúmlega 9.000 krónur.
Þetta verð getur hins vegar hæglega þrefaldast vegna hversu dýrt öll þjónusta og matur er á safninu. Til dæmis kostar einn súkkulaðifroskur 8 pund, eða um 1.350 krónur.
Hér má sjá listann í heild: