Illa hefur gengið að funda í bæjarstjórn og bæjarráði Hveragerðis undanfarið vegna klúðurs við skipulagningu funda. Tveimur fundum þurfti að aflýsa og einum fundi var slitið eftir aðeins sextán mínútur vegna ólöglegrar boðunar.
„Þetta er ekkert pólitískt en þetta verður að vera í lagi. Stjórnsýslan verður að vera í lagi. Bæjarbúa og laganna vegna,“ segir Alda Pálsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í minnihluta.
Fundur bæjarráðs var settur klukkan 8:00 í gærmorgun en ákveðið að gera fundarhlé klukkan 8:10 þegar vakin var athygli á því að fundurinn væri ólöglegur. Fundarboðið hafi komið innan við tveimur sólarhringum áður sem er of stuttur frestur.
Var fundinum framhaldið klukkan 8:15 en slitið 8:16 eftir að fulltrúar meirihlutans, Okkar Hveragerði og Framsóknarflokks, viðurkenndu brotið og lofuðu betrun.
Þetta er hins vegar ekki eina klúðrið varðandi fundarboðun því að viku áður þurfti að fella niður bæjarstjórnarfund. Fyrst var fundarboð sent út með sömu dagsetningu og daginn sem það var sent út. Annað fundarboðið var sent út með of skömmum fresti og því var fundinum aflýst. Alda segist hafa fengið að vita að fundinum væri aflýst með aðeins hálftíma fyrirvara í tölvupósti.
„Mannleg mistök áttu sér stað. Því miður fór fundarboð of seint út,“ segir Geir Sveinsson, bæjarstjóri Hveragerðis. Hann segir að málin ekki alveg sambærileg. Annað megi rekja til tölvukerfis en hitt til breyttrar stjórnsýslu.
„Það var boðað til bæjarstjórnarfundar sem því miður innihélt ranga dagsetningu. Það var boðað rétt til fundarins en það stóð í boðinu rangur dagur. Það var villa sem gerðist í tölvukerfinu og við tókum þá ákvörðun að boða til nýs fundar,“ segir Geir.
„Varðandi bæjarráðsfundinn þá fór það fundarboð of seint út. Ástæðan er sú að það er ekki nema rúmur mánuður síðan að nýjar samþykktir voru samþykktar í Hveragerðisbæ. Þá áttu sér stað breytingar á fundarboðum, dagsetningum og öðru. Það var óvart unnið eftir fyrri samþykktum,“ segir hann.
Geir segir að boðað verði til nýs fundar sem verði haldinn á mánudag.
Enginn auka kostnaður fellur til við bæjarstjórnarfundi en bæjarráðsfulltrúar frá greitt, nokkra tugi þúsunda fyrir, fund.
Alda segir að bæjarstjóri, formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar beri ábyrgð á því að fundarboðin séu rétt. „Þau eru nýbúin að breyta þessu en eru ekki að framfylgja því,“ segir hún.
Hún jánkar því að málið sé allt hið vandræðalegasta en bendir á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þetta hafi komið fyrir hjá núverandi meirihluta. Í júlí árið 2022 var bæjarstjórnarfundi slitið eftir aðeins fimm mínútur af því ólöglega var til hans boðað.