fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fréttir

Fleiri en Agnes blessuðu Gísla á Hólum – „Ég lagði hönd yfir hann líka þannig að þetta var alveg öruggt“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 20. október 2023 15:06

Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti segist ekki líta svo á að hann sjálfur sé biskup Íslands í dag.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Agnes Sigurðardóttir hyggst vígja ungprest í Dómkirkjunni á sunnudag. Mikil umræða er innan kirkjunnar um hvort embættisverk hennar síðan í fyrrasumar standi eftir úrskurð þess efnis að skipunartími hennar hafi runnið út. Vígsla Hólabiskups er sögð í uppnámi.

Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar kvað upp úrskurð á mánudag um að skipunartíma Agnesar Sigurðardóttur hefði runnið út 30. júní 2022. Á þriðjudag ræddi hún við séra Svein Valgeirsson dómkirkjuprest um að vígja ungprestinn Daníel Ágúst Gautason í Dómkirkjunni á sunnudag.

Sveinn segist ekki vita til annars en að þetta standi og að Agnes hyggist framkvæma hana. En athöfnin var auglýst í dag.

Enginn biskup á Íslandi

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir hæstaréttarlögmaðurinn Einar Gautur Steingrímsson að úrskurðurinn merki að það sé enginn biskup yfir Íslandi og hafi ekki verið síðan í fyrrasumar.

Setji þetta öll hennar embættisverk síðan þá í uppnám. Meðal annars prestvígslur og vígslu Gísla Gunnarssonar, vígslubiskups á Hólum. Hinn vígslubiskupinn, Kristján Björnsson í Skálholti, var hins vegar vígður fyrir fimm árum.

Gísli blessaður af fleirum en Agnesi

Í samtali við DV segist Kristján ekki líta á sig sem biskup Íslands þrátt fyrir áðurnefndar röksemdir. Hann segist heldur ekki líta svo á að staða kollega síns, Gísla á Hólum, sé í uppnámi. Almennt sé litið svo á að handayfirlögnin og blessunin í biskupsvígslu sé fyrst og fremst guðfræðilegt fyrirbæri sem marki skil í þjónustunni.

Agnes Sigurðardóttir hefur skotið úrskurðinum til dómstóla. En hver borgar fyrir það?

„Ég lagði hönd yfir hann líka þannig að þetta var alveg öruggt. Líka erlendir biskupar. Hann hefur alveg fulla blessun í biskupsþjónustuna,“ segir Kristján um vígslu Gísla. „Við erum prestar og erum prestvígðir og tökum svo á okkur þessar aukaskyldur.“

Vígslubiskupar fái kjörbréf frá kjörstjórn en ekki biskupi Íslands. Heldur sé ekki gerður ráðningarsamningur við biskup.

Til taks að stíga inn í

Vígslubiskupar eru næstráðandi í þjóðkirkjunni og Agnes hefur beðið Kristján um að taka að sér ýmis verk, til dæmis á meðan hún hefur verið í orlofi eða í vinnuferðum. Hann segist vera til taks að stíga inn ef Agnes stígi til hliðar.

„Þetta er úrskurður sem er nokkuð bindandi fyrir kirkjuna,“ segir Kristján. Uppi séu ýmis álitamál um hvernig túlka eigi þá stöðu sem upp er komin. Hann reiknar með að þetta skýrist áður en langt um líður.

„Þetta gerðist fyrir nokkrum dögum. Kirkjan hugsar nú allaf í eilífðinni. Nokkrir dagar til eða frá skipta ekki miklu. Frá því að úrskurðurinn lá fyrir hafa ekki verið neinar ákvarðanir eða embættisfærslur sem biskup hafi þurft að taka. Ef það þarf þá get ég gert það,“ segir Kristján.

Áleitnar spurningar

Staða Daníels Ágústs og Gísla á Hólum eru ekki þær einu sem eru í uppnámi. Agnes hefur vígt einhverja tugi, kannski um 20 presta, síðan í júlí árið 2022. Miklar umræður eru um gildi þeirra hjónavígsla sem þeir hafa framkvæmt, skírnir, útgefin sáttavottorð vegna hjónaskilnaða og fleira. Hvort kirkjan beri skaðabótaskyldu vegna þessa.

Hvað stöðu Agnesar sjálfrar varðar er komin upp sú spurning hvort það megi vera biskupslaust í landinu. Einnig hvort farið hafi verið á svig við hegningarlög. Því í 116. grein segir:

„Hver, sem tekur sér eitthvert opinbert vald, sem hann ekki hefur, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári] 1) eða, ef miklar sakir eru, fangelsi allt að 2 árum.“

Agnes hefur sagt að niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar verði skotið til dómstóla. Á hverjum kostnaðurinn af þeirri málsókn lendir er hins vegar óvíst.

Hafa skoðað sína lögfræðilegu stöðu

„Ég myndi ekki taka svo djúpt í árina að við höfum áhyggjur en við höfum skoðað okkar lögfræðilegu stöðu,“ segir Þorgrímur Daníelsson, formaður Prestafélagsins.

Félagið fylgist með en hefur ekki ályktað neitt um málið að svo stöddu.

Þorgrímur Daníelsson formaður Prestafélagsins.

Þorgrímur segir það vel geta verið að prestar hafi talað saman um málið án þess að staðfesta að félaginu hafi borist fyrirspurnir vegna þess.

„Ég veit ekki hvort það er ástæða til að skýra frá einkasamtölum á meðal presta í fjölmiðlum,“ segir hann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri