Morðvopnið í Drangahrauns-málinu svokallaða er líklega fundið, fjórum mánuðum eftir morðið og rétt eftir að aðalmeðferð þess lauk í Héraðsdómi Reykjaness. RÚV greinir frá þessu en það voru fyrrverandi eiginkona og dóttir hins myrta, Jaroslaw Kaminski, sem fundu blóðugan hníf í íbúð hans í fyrradag þegar þær voru að taka saman dót hans. Hnífurinn hefur verið sendur í flýtirannsókn til Svíþjóðar en bráðabirgðarannsóknir virðast benda til þess að mennskt blóð sé á hnífinum.
Maciej Jakub Talik, sem leigði herbergi af Jaroslaw í Drangahrauni, er grunaður um að hafa stungið hann til bana. Verjandi hans, Elimar Hauksson, segir að um skandal sé að ræða því að fundur morðvopnsins á vettvangi morðsins sýni hversu léleg vettvangsrannsókn tæknideildar lögreglu var. Þá hafi blóðferlarannsókn ekki verið framkvæmd sem sé ámælisvert .
Sjá einnig: Hryllingsnóttin í Drangahrauni – Meintur morðingi mættur í dómsal
„Blóðferlarannsókn hefur verið gerð í nánast öllum manndrápsmálum Íslandi síðustu ár. Slíkar rannsóknir hafa getað bætt gríðarlega miklu við í að upplýsa málsatvik í slíkum málum. Það var hins vegar ekki gert og það hefur ekki verið útskýrt með fullnægjandi hætti hvers vegna það var ekki gert. Núna kemur í ljós að vettvangsrannsókn tæknideildar lögreglu var ekki betri en svo að hnífurinn fannst ekki þrátt fyrir að hafa verið þarna á vettvangi og það er bara eitt um það að segja að þetta er skandall,“ segir Elimar og er á því að málið sé í uppnámi.
Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari í málinu, segir að fundurinn þurfi þó ekki endilega að hafa afdrifarík áhrif á mál
Maciej gæti átt yfir höfði sér 16 ára fangelsi vegna ódæðisins. Hann hefur borið við sjálfsvörn og haldið því fram að Jaroslaw hafi fjárkúgað hann.