fbpx
Mánudagur 13.janúar 2025
Fréttir

Yfirlýsing í auðkýfingsmálinu: Kona sem fékk 130 milljónir svarar fyrir sig

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 17. október 2023 14:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir meiriháttar skattalagabrot í tengslum við meinta gjöf erlends auðkýfings til hennar upp á yfir 130 milljónir króna, segir að greiðslan hafi verið lán en ekki gjöf og að umrædd skattkrafa sé greidd. Málatilbúnaður ákæruvaldsins eigi því ekki rétt á sér.

Lögmaður konunnar, Sævar Þór Jónsson, hefur haft samband við DV og beðið um birtingu á yfirlýsingu fyrir hennar hönd í málinu.

Sjá einnig: Þrjár íslenskar konur ákærðar fyrir skattsvik eftir að hafa þegið 200 milljónir frá erlendum auðkýfingi

Eins og DV greindi frá í morgun hefur héraðssaksóknari ákært þrjár íslenskar konur fyrir skattalagabrot í tengslum við vináttu sína við erlendan auðmann og meintar fjárgjafir frá honum. Tvær kvennanna eru mæðgur.

Ein konan er 28 ára gömul. Í ákæru er hún sögð hafa þegið af manninum rúmlega 131,4 milljónir króna, megnið á árinu 2016. Á skattframtali gerði hún grein fyrir greiðslunum sem skuldum en skattayfirvöld og héraðssaksóknari telja að um gjöf hafi verið að ræða. Vangreiddur tekjuskattur konunnar er sagður nema um 59,1 milljón króna.

Önnur konan er á sjötugsaldri. Hún er sögð hafa þegið fjárgjafir frá manninum og ekki gert grein fyrir þeim sem skattskyldum gjöfum árin 2014, 2015, 2016 og 2017. Nema meintar fjárgjafir mannsins til konunnar um 54,4 milljónum króna. Vangreiddur tekjuskattur þessarar konu er sagður nema samtals um 20,7 milljónum króna.

Þriðja konan er dóttir konunnar á sjötugsaldri og er hún á fertugsaldri. Hún er sögð hafa þegið 13,1 milljón króna af manninum árið 2015 og 16,3 milljónir árið 2017, eða samtals hátt í 30 milljónir króna. Vangreiddur tekjuskattur konunnar vegna þessara meintu fjárgjafa er sagður nema um 10,8 milljónum króna.

Fyrirtaka verður í málinu um miðjan nóvember og má búast við að aðalmeðferð verði skömmu eftir áramót.

Búið að borga allar kröfur í málinu

Konan sem vill koma yfirlýsingu í málinu á framfæri er sú 28 ára sem sögð er hafa þegið 131,4 milljónir króna frá manninum. Í yfirlýsingu lögmanns hennar er lýst yfir furðu vegna framgöngu ákæruvaldsins í ljósi þess að umrædd skattskuld hafi verið gerð upp að fullu og að greiðslan hafi auk þess verið lán en ekki gjöf. Yfirlýsing Sævars Þór Jónssonar, lögmanns konunnar, fyrir hennar hönd, er eftirfarandi:

„Með vísan til fréttar sem birtist í dag á fréttavefnum dv.is undir fyrirsögninni: „Þrjár íslenskar konur ákærðar fyrir skattsvik eftir að hafa þegið 200 milljónir frá erlendum auðkýfingi“ vill umbjóðandi minn koma eftirfarandi á framfæri.

Umbjóðandi minn er ein þessara þriggja kvenna og er sú sem sögð er hafa þegið rúmlegar 131,4 milljónir af umræddum auðkýfingi. Umbjóðandi minn vill koma því á framfæri að um lán hafi verið að ræða sem hún hafi þegar greitt skatta af og því mótmælir hún þeirri fullyrðingu sem kemur fram í fréttinni að um sé að ræða vangoldna skatta af þeirri fjárhæð.

Að sama skapi furðar umbjóðandi minn sig á því að ákæruvaldið skuli gefa út ákæru á hendur henni þegar búið er að gera upp allar skattkröfur sem lagðar voru á hana vegna málsins. Umbjóðandi minn telur ljóst að málatilbúnaður ákæruvaldsins eigi ekki rétt á sér enda sé umrædd skattkrafa greidd.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja