Afar sérstakt skattalagamál verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í næsta mánuði. Þrjár konur eru þar ákærðar fyrir skattalagabrot í tengslum við vináttu sína við erlendan auðmann og meintar fjárgjafir frá honum. Tvær kvennanna eru mæðgur.
Ein konan er 28 ára gömul. Í ákæru er hún sögð hafa þegið af manninum rúmlega 131,4 milljónir króna, megnið á árinu 2016. Á skattframtali gerði hún grein fyrir greiðslunum sem skuldum en skattayfirvöld og héraðssaksóknari telja að um gjöf hafi verið að ræða.
Vangreiddur tekjuskattur konunnar er sagður nema um 59,1 milljón króna.
Önnur konan er á sjötugsaldri. Hún er sögð hafa þegið fjárgjafir frá manninum og ekki gert grein fyrir þeim sem skattskyldum gjöfum árin 2014, 2015, 2016 og 2017. Nema meintar fjárgjafir mannsins til konunnar námu um 54,4 milljónum króna.
Vangreiddur tekjuskattur þessarar konu er sagður nema samtals um 20,7 milljónum króna.
Þriðja konan er dóttir konunnar á sjötugsaldri og er hún á fertugsaldri. Hún er sögð hafa þegið 13,1 milljón króna af manninum árið 2015 og 16,3 milljónir árið 2017, eða samtals hátt í 30 milljónir króna.
Vangreiddur tekjuskattur konunnar vegna þessara meintu fjárgjafa er sagður nema um 10,8 milljónum króna.
Fyrirtaka verður í málinu um miðjan nóvember og má búast við að aðalmeðferð verði skömmu eftir áramót.