Upphaflegur áætlaður komutími vélarinnar til London þennan dag var klukkan 10:55 en að sögn Icelandair var raunverulegur komutími vélarinnar klukkan 13:54, það er seinkun sem nam tveimur klukkustundum og 59 mínútum.
Álitaefnið í málinu sneri að því hvort seinkunin hafi náð 3 klukkustundum, en við það er miðað þegar kemur að því hvort bótaskilyrði teljist uppfyllt. Bent er á það í niðurstöðu Samgöngustofu að sönnunarbyrðin hvíli hjá flugrekanda.
Í svari Icelandair kemur fram að félagið hafi leitað til sérfræðinga sinna á sviði flugrekstrar til að fá það staðfest hvenær hurðin var opnuð í þessu tiltekna flugi. Stuðst hafi verið við svokallaðan IN tíma sem leiddi í ljós að seinkunin var 2 klukkustundir og 59 mínútur.
Þeir sem kvörtuðu gáfu lítið fyrir svör Icelandair í málinu.
„Það er mjög dapurt að flugfarþegar þurfi einna 2 helst bæði að vera lögfræðimenntaðir og að hafa kafað djúpt í Evrópureglugerðir, sem og fordæmi Evrópudómstólsins og Samgöngustofu, til þess að skilja hvers vegna þeim er neitað um staðlaðar bætur – sér í lagi þegar starfsmenn á vegum félagsins hafa þegar talið farþegum trú um að þeir muni fá greiddar bætur vegna seinkunar,“ segir í svarinu.
Í niðurstöðu Samgöngustofu kemur fram að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum seinna eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, eigi rétt á bótum nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
Við meðferð málsins var sérfræðingur í lofthæfi- og skrásetningardeild Samgöngustofu beðinn um að leggja mat á yfirlýsingu Icelandair sem send var til Samgöngustofu til staðfestingar á tæknilegu atriði er varðar komutíma vélarinnar. Í niðurstöðunni kemur fram að umræddur sérfræðingur hafi ekki gert athugasemdir sem komu fram í yfirlýsingu Icelandair.
Í niðurstöðunni segir ennfremur:
„Skilyrði bótaskyldu vegna seinkunar skv. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 er að seinkun hafi numið a.m.k. þremur klukkustundum. Seinkun á komutíma flugs nr. FI470 þann 15. desember 2022 var tvær klukkustundir og 59 mínútur. Skilyrði bótaskyldu seinkunar skv. 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 eru því ekki uppfyllt. Er því kröfu kvartanda hafnað.“