Þetta sagði Jón Norðfjörð, fyrrverandi framkvæmdastjóri, í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu um helgina og vakti nokkra athygli.
Í grein sinni fjallar Jón um lánin hjá bönkunum og þá gríðarlegu fjármuni sem heimili landsins þurfa að greiða í vexti. Jón segir að þetta sé afleiðing ótrúlegrar vanrækslu ráðamanna og segir hann að bankar og aðrar lánastofnanir fái algjört frelsi til að „okra“ og „ræna“ lántakendur eigum sínum á þess að gripið sé inn í.
„Mér brá ónotalega þegar ég heyrði mann segja frá því í útvarpsþætti að hann greiddi 350 þúsund krónur á mánuði af óverðtryggðum lánum sínum og af þeirri upphæð sagði hann lánin lækka um fimm þúsund krónur á mánuði. Þetta þýðir að maðurinn greiðir 4,2 milljónir króna á ári af lánunum en þau lækka aðeins um 60 þúsund krónur af þeirri upphæð. Sem sagt: bankinn fær 98,57% af upphæðinni en greiðandinn fær 1,43% í sinn hlut. Getur það verið að stjórnvöld á Íslandi láti svona ræningjastarfsemi líðast án þess að gera eitthvað í málinu? Ég ákvað að kanna málið betur og fékk upplýsingar frá nokkrum aðilum sem sýna að þessi framkoma bankanna á algjörlega við rök að styðjast. Ég er með nokkur dæmi um óverðtryggð lán, en ætla hér aðeins að nefna tvö þeirra,“ segir hann meðal annars.
Annað dæmið sem hann nefnir er af lántakanda sem greiðir 177 þúsund krónur á mánuði, en af þeirri upphæð fara 2.900 krónur til lækkunar á láninu. Hitt dæmið er af lántakanda sem greiðir 240 þúsund krónur á mánuði og af þeirri upphæð fara 6.100 krónur til lækkunar á láninu.
„Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég fór að skoða þessi mál betur. Ég er með fleiri svipuð dæmi en læt þessi nægja núna til að lengja ekki mál mitt um of. Getur verið að ráðamenn þjóðarinnar sjái ekki hvað er að gerast? Augljóst er að bankar fá átölulaust að okra og níðast á fólki án þess að ráðamenn grípi inn í. Þetta er í mínum huga ræningjastarfsemi af verstu gerð,“ segir hann.
Hann endar grein sína á þeim orðum að það ætti að vera hægt að skylda lánastofnanir til að skila til baka til greiðenda hluta vaxtaupphæðarinnar í formi vaxtabóta sem gengi beint inn á höfuðstól lán.
„Það er mun eðlilegra að bankarnir skili til baka en að láta ríkissjóð greiða vaxtabætur til fólks og létta þannig undir með bönkunum í þessari óheilla okurstarfsemi. Ég hvet ráðamenn þjóðarinnar til að taka strax á málinu og bregðast ekki skyldu sinni með því að leiða þetta hjá sér.“