Æðarfuglinn hefur betri varnir gegn refnum en minknum. Minkurinn hefur drepið um 60 prósent af æðarvarpinu í Brokey á Breiðafirði. Í nálægri Purkey hafði refurinn engin teljandi áhrif á stofninn.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og stofnunarinnar IGB í Berlín í Þýskalandi.
Vísindamennirnir notuðu gögn frá þeim fjölskyldum sem hafa tínt æðardún og þekkja svæðið betur en nokkrir aðrir. Gögnin ná 123 ár aftur í tímann.
Um þriðjungur af öllum æðarfuglum álfunnar verpir á Íslandi. Á hverju ári er um þremur tonnum af æðardún safnað til að framleiða hágæða sængurfatnað og einangrun í föt. Eru þetta miklar nytjar og því var tilkoma minksins skaðræði.
Gunnar á Selalæk þingmaður flutti minkinn inn frá Noregi árið 1931, en tegundin er samt amerísk marðartegund. Strax árið 1932 sluppu fyrstu minkarnir úr búrum á Suðurlandi og fimm árum seinna fannst greni í Reykjavík. Ljóst var að minkurinn var orðinn útbreiddur í íslenskri náttúru, gat vel lifað hér af og erfitt yrði að útrýma honum jafn vel þó skyttum sé greitt fyrir hvert skott.
Smám saman breiddist minkurinn út um landið og þar sem hann getur vel synt hefur hann lagst bæði á fugla og fiska, og drepur mun meira en hann þarf til að éta.
Í rannsókninni kemur fram að tilkoma minksins í Breiðafjörð hafði meiri áhrif á æðavörpin en loftslagsbreytingar. Fækkaði hreiðrum um 60 prósent í Brokey.
Refurinn hefur lifað á Íslandi síðan á ísöld og líkt og minkurinn er hann vargur. Hann er hins vegar ekki syndur og því eiga æðarfuglarnir auðveldara með því að bregðast við honum.
Í rannsókninni kemur fram að fuglar í Purkey fluttu varp sitt út í smærri eyjar, sem refurinn gat ekki synt út í. Æðarfuglinn hefur hins vegar engar varnir gegn minknum.
„Eina innlenda rándýrið sem er spendýr er heimskautarefurinn. Æðarfuglarnir hafa þróað með sér varnir gegn þessum óvin. En þær virka ekki gegn hinum nýja óvini, hinum ágenga ameríska mink,“ segir Florian Ruland, vísindamaður hjá IGB.