fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Reykjavíkurborg laut í lægra haldi fyrir konu sem datt við sundlaugarbakka

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 13. október 2023 10:00

Landsréttur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur birti í gær dóm sinn í máli sem Reykjavíkurborg áfrýjaði til réttarins. Snýst málið um konu sem féll á mottu bakka einnar af þeim sundlaugum sem rekin er af borginni, með þeim afleiðingum að hún hlaut líkamstjón. Konan fór í mál við borgina á þeim grundvelli að búnaði við sundlaugina hefði verið ábótavant. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi konunni í vil og var borginni fyrirskipað að greiða henni tæpar 3,5 milljónir króna í bætur auk vaxta. Reykjavíkurborg áfrýjaði dómnum, á síðasta ári, til Landsréttar sem staðfesti í gær dóm Héraðsdóms.

Í dómi Landsréttar og dómi Héraðsdóms sem fylgir með honum er atburðarásinni lýst nánar.

Konan var í desember árið 2018 á gangi frá kvennaklefa í átt að heitum potti sem er á útisvæði, samsíða útilaug sundlaugarinnar. Gekk hún eftir blárri mottu sem komið hafði verið fyrir á gönguleiðinni þegar henni skrikaði fótur og féll. Frostlaust var þegar atvikið átti sér stað og enginn snjór á bakkanum. Þegar konan féll mun hún hafa borið fyrir sig vinstri höndina og fengið högg á handlegginn og vinstra hné.

Lögreglan var kvödd á staðinn og ræddi við konuna sem var svo flutt með sjúkrabíl á slysadeild. Þar kom í ljós að hún hafði brotnað á vinstri handlegg og bólgnað á vinstra hné. Konan var síðar skoðuð af bæklunarlækni sem sagði að búast mætti við að hún myndi fá slitgigt í úlnlið vinstri handar. Bæklunarlæknirinn mat það svo að konan hefði borið varanlega miska eftir slysið og var hún metin óvinnufær í rúman einn og hálfan mánuð eftir það. Örorka hennar var metin 5 prósent.

Frekari ráðstafanir sem gerðar voru hafi sýnt fram á skort á öryggi

Í skýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kom fram að tilkynnt hefði verið um 14 hálkuslys við umrædda útilaug áður en umrætt slys átti sér stað. Mottum eins og þeim sem konan hrasaði á var þá komið fyrir en þær sagðar ónothæfar, vegna hálkumyndunar, ef það frysti. Heilbrigðiseftirlitið krafðist varanlegri ráðstafana og var þá borið sérstakt efni á sundlaugarbakkann til að gera hann stamari.

Konan fór fram á bætur úr ábyrgðartryggingu borgarinnar en því var hafnað. Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum tók undir með konunni og sagði gögn málsins sýna fram á að aðstæður hefðu ekki verið nægilega öruggar fyrir gangandi vegfarendur og það að gerðar hefðu verið viðbótarráðstafanir eftir slysið ýtti undir þá niðurstöðu.

Borgin undi ekki úrskurði nefndarinnar og fullyrti að aðstæður á slysstað hefðu uppfyllt öll skilyrði starfsleyfis um hálkuvarnir. Konan höfðaði því mál á hendur borginni.

Fyrir Héraðsdómi sagði lögmaður konunnar ljóst að motturnar á sundlaugarbakkanum hefðu verið verulega sleipar og að starfsmenn laugarinnar hefðu sagt að þær væru ónothæfar að vetri til vegna hálkumyndunar. Þrátt fyrir það hafi þær ekki verið fjarlægðar. Aðbúnaður í sundlauginni hafi ekki verið í samræmi við reglugerðir. Viðvaranir um hálku á bakkanum hafi verið ófullnægjandi. Fór hann fram á rúmar 3,5 milljónir króna í bætur fyrir konuna vegna örorku og miska.

Reykjavíkurborg hélt fast við að aðbúnaður hefði verið fullnægjandi og að ekki hefðu verið fullnægjandi sönnur færðar á að aðstæður hefðu verið óvenju hættulegar. Frost hafi ekki verið þennan dag og því hafi starfsmönnum sundlaugarinnar ekki borið að fjarlægja motturnar af sundlaugarbakkanum. Konan hefði sjálf ekki sýnt næga aðgæslu og sem tíður gestur sundlauga hefði hún átt að vita hvernig aðstæður geti orðið á sundlaugarbökkum.

Í niðurstöðu Héraðsdóms kemur fram að óumdeilt sé að motturnar hafi verið settar á bakka sundlaugarinnar til að bregðast við því að nokkuð hefði verið um að gestir hefðu dottið og slasast á bakkanum. Lögregla hefði ekki rannsakað vettvang. Mottan sem konan datt á hafi ekki verið rannsökuð og konan raunar ekki viss um hvernig mottu hún datt á. Þegar sé hins vegar um að ræða þjónustuhúsnæði eins og sundlaug sem almenningur sé hvattur til að sækja verði að gera ríkar kröfur um öryggi í húsnæðinu. Hált hafi verið þar sem konan féll og í slysaskýrslu sem fyllt var út af starfsmanni laugarinnar hafi orðið hálka verið notað.

Lögmaður konunnar vísaði í málflutningi sínum til skýrslunnar en Reykjavíkurborg hafnaði gildi skýrslunnar og sagði um persónulegt mat starfsmannsins að ræða.

Héraðsdómur segir í sínum dómi að mottunum hafi verið komið fyrir vegna ágalla á yfirborði bakkans og þær sjálfar hafi getað orðið hættulega hálar. Kröfur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að auknar ráðstafanir yrðu gerðar við bakkann sýni fram á að aðstæður í sundlauginni hafi ekki verið í samræmi við reglugerð um hollustuhætti á sundstöðum. Það fái ekki staðist að konan hafi sýnt af sér gáleysi eða að hálka á bakkanum hafi verið eðlileg og því um tilviljun að ræða.

Héraðsdómur dæmdi því konunni í vil og féllst á bótakröfur hennar að fullu.

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að aðstæður við sundlaugina hefðu verið ófullnægjandi og það hefði augljóslega ekki dugað að bregðast við tíðum slysum með því að koma mottunum fyrir. Þótt frost hefði ekki verið daginn sem konan datt hefði verið frost dagana á undan og snjóað síðustu tvo daga fyrir slysið. Tekur rétturinn undir með Héraðsdómi um að kröfur Heilbrigðiseftirlitsins um úrbætur, eftir að slysið átti sér stað, sýni fram á aðstæður hafi ekki verið í samræmi við reglur um aðbúnað á sundstöðum. Reykjavíkurborg beri sem rekstraraðili sundlaugarinnar ábyrgð á tjóni sem gestir verði fyrir vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Borginni hafi ennfremur ekki tekist að sýna fram á að konan hefði ekki farið að öllu með gát.

Þar af leiðandi staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms að öllu leyti.

Dóm Landsréttar má lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”

Sara furðar sig á því að leikskólar haldi upp á bóndadaginn – „Komið út í svo mikið bull”
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn

Ekkert lát á hreinsunum hjá Sýn – Nú er Steinn Kári farinn
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“