Bóndinn Helga Björg Helgadóttir, sem missti eiginmann sinn í vinnuslysi í vor, þurfti að ganga í gegnum sérstaka úttekt hjá mjólkursamlaginu og Matvælastofnun til að fá kennitölu búskapsins breytt. Þetta hafi verið yfirþyrmandi reynsla fyrir ekkju með þrjú lítil börn og hún hafi hugsað um að hætta búskapnum.
Helga og maður hennar Guðjón Björnsson hófu búskap á bænum Syðri Hömrum 3 í Ásahreppi fyrir rúmum tíu árum síðan, í janúar árið 2013. Á býlinu eru um 45 kýr. Tóku þau við búskapnum af tengdaforeldrum Helgu sem höfðu verið í félagsbúi með frænda hans.
Guðjón lést í vinnuslysi þegar hann klemmdist við dráttarvél þann 17. mars síðastliðinn, fertugur að aldri.
Það kom hins vegar ekkert annað til greina fyrir Helgu en að halda rekstri búsins áfram.
„Ég fór á sjálfstýringu eftir að þetta gerðist. Það þurfti að halda áfram og hugsa um kýrnar,“ segir hún.
Búið var hins vegar skráð á kennitölu Guðjóns og því þurfti Helga að breyta skráningunni hjá hinum ýmsu aðilum. Í flestum tilfellum, eins og hjá matvælaráðuneytinu,sláturhúsunum og fóðurfyrirtækjunum, reyndist þetta lítið mál. Eitt símtal og málið var leyst.
En hjá mjókursamlaginu Auðhumlu, sem kaupir mjólkina, reyndist þetta meira mál. Þurfti hún að leggja inn umsókn, fá nýtt innleggsnúmer og sækja um nýtt mjólkursöluleyfi hjá Matvælastofnun. Jafn vel þó um væri að ræða sömu kýrnar, sama fjósið og sama bóndann.
„Eftir að ég fékk þessi svör frá Auðhumlu var það fyrsta sem ég hugsaði: Ég ætla bara að hætta þessu, ég nenni þessu ekki,“ segir Helga. „Áður hafði ég ekkert hugsað út í það að fara að hætta með kýrnar. En þarna kom svolítil uppgjöf. Þegar þú lendir í svona áfalli verða litlu vandamálin alveg ofboðslega stór.“
Helga segir að viðmótið hjá starfsfólkinu hefði ekki verið slæmt eða dónalegt. En sveigjanleikinn virtist enginn vera. Ferlið var ferkantað og flókið og kom á versta tíma.
„Þegar þú ert í svona ástandi eins og ég er búin að vera í þá segir þú já og ókei við öllu. Eftir á fór ég að hugsa um hvers vegna þarf þetta að vera svona. Ég var í miðjum heyskap með þrjú lítil börn og þurfti þá að fara að standa í þessu og fá MAST til mín að skoða hluti sem þeir hafa skoðað áður og verið allt í lagi. Af hverju þurfti ég að byrja upp á nýtt? Ég skildi það ekki,“ segir hún. „Það kom til mín starfsmaður frá MAST með plagg eins og spurði hvort ég væri með einhverja reynslu af kúabúskap. Ég er búin að standa í þessu í tíu ár.“
Hún segir það hafa verið hræðilegt að ganga í gegnum þess úttekt. „Ég veit að þau eru að vinna vinnuna sína en þetta var eitthvað svo yfirþyrmandi. Það var eins og ég hefði ekki verið hluti af búskapnum. Eins og ég væri að byrja upp á nýtt,“ segir hún.
Aðspurð um hvort þetta geti tengst því að hún sé kona segir hún það vel geta verið. Í sveitum séu búin yfirleitt skráð á kennitölur karlanna þó konurnar sinni búskapnum eins og þeir.
„Ég held að þetta sé líka jafnréttismál sem þarf að skoða,“ segir hún.
Helga hefur ekki haft beint samband við Auðhumlu eða Matvælastofnun en hún hefur lýst reynslu sinni á samfélagsmiðlum.
Þar hefur Jóhannes Hreiðar Símonarson, framkvæmdastjóri, svarað henni og sagt að það hafi ekki verið ætlun hans eða stjórnar Auðhumlu að íþyngja henni. Sem framkvæmdastjóri félagsins þurfi hann þó að sinna hlutverki sínu í samræmi við gildandi samþykktir.
Ný innleggsnúmer snúist um að halda utan um uppsöfnun og uppgjöri á stofnsjóði viðkomandi, óháð því hvort um sé að ræða sama fjósið eða sömu kýrnar. Auðhumla megi ekki skrá nýjan innleggjanda nema viðkomandi hafi gild leyfi frá MAST.
„Mér þykir það leitt ef þetta hefur valdið henni svona miklu hugarangri. Ég upplifði það ekki þannig þegar við áttum okkar samskipti. Við vildum koma fram við hana af nærgætni eins og við framast gátum,“ segir Jóhannes í samtali við DV.
Aðspurður um hvort að Auðhumla ætli að reyna að breyta eða bæta verklag sitt segir Jóhannes að málið verði rætt í stjórninni. Þar verði það metið hvort einhverju þurfi að breyta í verklaginu.
„Sjálfsagt er að laga eitthvað ef það þarf. En þetta þarf að vera nokkuð formfast. Við viljum halda formfestunni í lagi þannig að allt sé skýrt og kassalaga. Það má ekki vera nein lausung í þessu,“ segir Jóhannes.