Hand, sem er breskur, ræddi málið við CNN en dóttir hans, Emily, var í hópi um hundrað óbreyttra borgara sem myrtir voru í bænum Be‘eri nærri landamærum Gaza.
Hand beið í tvo daga eftir fréttum af dóttur sinni en vígamenn Hamas-samtakanna ruddust inn í þorpið snemma á laugardag og myrtu fjölmarga íbúa.
Hand brotnaði saman í viðtalinu þegar hann rifjaði upp hvað fór í gegnum huga hans þegar hann frétti af því að dóttir hans hefði fundist látin. Hann hafi fundið fyrir létti, vitandi það að hún þurfti ekki að þjást lengi. „Hún var annað hvort látin eða í haldi Hamas. Og ef þú veist hvað er gert við fólkið í Gaza þá er það verra en dauði.“
Dóttir hans fór til vinkonu sinnar á föstudagskvöld í umræddu þorpi og gisti hjá henni.
„Hún gerir það ekki oft, en því miður, þá gerði hún það þetta tiltekna föstudagskvöld,“ sagði hann.
Þegar hann fékk fréttir af því að liðsmenn Hamas væru komnir inn í þorpið kvaðst Hand hafa átt von á því að ísraelskir hermenn yrðu fljótir á vettvang til að ná stjórn á ástandinu. Raunin varð þó önnur og tók það ísraelska herinn nokkra klukkutíma að komast á vettvang.
Hrikalegar fréttir af voðaverkum Hamas hafa birst í erlendum fjölmiðlum að undanförnu. Í umfjöllun Mail Online kemur fram að heilu fjölskyldurnar hafi verið brenndar lifandi, börn hafi verið afhöfðuð og konum og stúlkum nauðgað.
Jonathan Conricus, talsmaður ísraelska hersins, segir að réttarmeinafræðingur hafi skoðað ummerki eftir fjöldamorðin í Be‘eri og staðfest þetta. „Það er í raun erfitt að trúa því að jafnvel Hamas-samtökin gætu framið svona villimannsleg morð,“ segir hann við BBC.
In a heart-wrenching interview on @CNNsitRoom, CNN reporter Clarissa Ward speaks with @WolfBlitzer about a grieving father who finally received confirmation of his daughter's tragic death during the Hamas attack. Watch: pic.twitter.com/F9Yh3lW5KI
— CNN (@CNN) October 12, 2023