Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, hefur miklar áhyggjur af framtíð íslenskra barna ef fram heldur sem horfir.
Þorgrímur skrifar kraftmikla grein – hrollvekjandi jafnvel, myndu sumir segja – í Morgunblaðið í dag sem ber yfirskriftina Árið er 2025.
„Ráðamenn þjóðarinnar sitja á neyðarfundi ásamt landlækni, umboðsmanni barna og sveitarstjórum eftir að hafa vaknað upp við þá staðreynd að kennarar geta ekki einir gert kraftaverk, sinnt ólíkum hópi nemenda og leyst öll mál. Ansi margir foreldrar hafa ekki lengur tíma til að vera foreldrar, þora ekki að setja börnum sínum mörk og kunna ekki að þjálfa upp dugnað og seiglu,“ segir hann og heldur áfram:
„Talsmaður ráðamanna segir að næstu tólf mánuði verði daglegir blaðamannafundir í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu eins og þegar covid geisaði. Fjallað verður um hvernig hægt sé að auka orðaforða barna og ungmenna, auka hreyfingu þeirra, bæta svefninn, minnka skjátíma og draga þannig úr kvíða, þunglyndi, depurð, einmanaleika og einbeitingarleysi.“
Þorgrímur hefur áður viðrað áhyggjur sínar af þessari stöðu og lagt sig fram um að efla læsi grunnskólanema. Hefur hann meðal annars haldið fyrirlestra í skólum í þeim tilgangi. Þorgrímur fékk viðurkenningu Barnaheilla árið 2016 og hefur hann um langt skeið unnið að forvörnum og hvatt börn til heilbrigðs lífsstíls. Augljóst er að hann hefur áhyggjur af stöðunni og lýsir hann stöðunni árið 2025 út frá sjónarhóli talsmanns ráðamanna – sem allt eins gæti verið hann sjálfur.
„Talsmaðurinn segist hafa heimsótt fjölmarga skóla sem hafa haft hugrekki til að frelsa nemendur frá því að vera þrælar „snjall“símanna á skólatíma og orðið fyrir mikilli upplifun við að sjá krakka tala saman, sprella og leika sér. Hann segist enn fremur hafa áttað sig á því að margir nemendur séu með svo lélegan orðaforða að þeir viti ekki hvað hugtakið orðaforði þýðir! Og svo má bæta því við, segir talsmaðurinn, að skólastjóri sagði að það væri löngu tímabært að kennarar skiluðu ábyrgðinni á uppeldi barna aftur til foreldra.“
Þorgrímur segir að við séum að vakna upp við vondan draum og við þurfum að breyta hegðun okkar.
„Börnin eru fjársjóður framtíðarinnar og þau eiga það skilið að þeim sé veitt aðhald og sýnd sú virðing að þeim sé sinnt af alúð. Og að sama skapi vernda þau fyrir því sem eitrar þau og brýtur þau niður. Börn munu alltaf ganga eins langt og þau geta og þess vegna verða foreldrar að sinna sínu hlutverki betur, sýna aga og festu. Þótt foreldrar þurfi sinn frítíma er glapræði að skella síma, iPad eða tölvu fyrir framan börn til þess að fá frið sjálfir. Slíkt mun hafa alvarlegar afleiðingar, eins og flestir vita. Kennari tjáði mér um daginn að mörg börn byrjuðu í 1. bekk með sex ára „stjórnunarreynslu“ að heiman. Farsældarfrumvarpið er frábært en við getum ekki leyft okkur að vera stikkfrí.“
Hann segir að ef fram heldur sem horfir verði börnin okkar „gervi-greind“ innan nokkurra ára og síminn talsmaður þeirra. Þau viti ekki hvað þau eigi að segja og hafi ekki orðaforða til að tjá sig.
„Nýjar kannanir sýna að tæplega helmingur nemenda í 8.-10. bekk telur geðheilsu sína ekki góða. Við erum í sjokki, segir talsmaðurinn. Við höfum fengið fjölda ábendinga um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar áratugum saman en þær hafa lent í neðstu skúffunni. Við þurfum að kveikja neistann út um allt land. Hann bætir við að Ríkisútvarpið og Ríkissjónvarpið, og vonandi fleiri miðlar, muni á næstu mánuðum birta auglýsingar til að hvetja foreldra til dáða, halda þeim við efnið, svo að börnin nái að blómstra, öðlist sjálfstraust til að standa í lappirnar. Við erum miður okkar, segir talsmaðurinn, að hafa verið að karpa um alls kyns ómerkileg mál, í stjórnlausu kvalræði, á meðan það hefur molnað undan börnum þessa lands. Við biðjumst afsökunar á því.“