Á forsíðu Morgunblaðsins er fjallað um tíðindi gærdagsins og meðal annars rætt við Bjarna sem segist ekki útiloka neitt varðandi framtíðina. Miðað við þau orð gæti vel farið svo að hann muni sitja áfram í ríkisstjórninni en í öðru ráðuneyti.
Meðal þeirra sem nefndir hafa verið sem arftakar Bjarna í fjármálaráðuneytinu er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. Hún er sögð treg til, að því er Morgunblaðið greinir frá, vegna mikilvægra og viðkvæmra verkefna á alþjóðasviðinu.
Þá kveðst Morgunblaðið hafa heimildir fyrir því að frá Framsókn og VG hafi komið fram hugmyndir um stærri uppstokkun þar sem flokkarnir jafnvel skiptast á ráðuneytum. Innan þeirra flokka sé vilji til að halda samstarfinu áfram en nauðsynlegt sé að leysa ákveðin vandamál sem eru til staðar.
Heimildarmenn blaðsins úr röðum þingflokks Sjálfstæðisflokksins töldu ólíklegt að Bjarni myndi yfirgefa hið pólitíska svið og segja af sér þingmennsku. Bjarni ætti enn fullt erindi á þeim vettvangi og væri lítt umdeildur foringi Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir álit umboðsmanns Alþingis í gær.