Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, telur að sá möguleiki sé fyrir hendi að andstæðingar rafhlaupahjóla séu að færa fararskjótana til á gangstéttum til þess að gera aðra vegfarendur mótfallna hjólunum og þar með rekstraraðilum hjólanna. Þetta kemur fram í færslu Alexöndru á Facebook-síðunni Samtök um bíllausan lífsstíl.
„Rétt í þessu var ég að drífa mig úr ráðhúsinu út í Borgartún, og ákvað að fara á leigu rafmagnshlaupahjóli, sem var fínt, en ég tók eftir einu. Ég þurfti að stoppa og færa 4 leigu hlaupahjól sem hafði ekki bara verið lagt illa, heldur var eins og þeim hefði beinlínis verið stillt upp til að vera eins mikið fyrir og mögulega er hægt. Þetta var eins og hindranahlaup á kafla,“ skrifar Alexandra.
Segist hún varla kaupa það að notendur séu að skilja þau svona illa eftir sig, þvert yfir gangstéttina.