Vísindamenn við Durham háskóla í Bretlandi hafa grafið upp ýmis dýrabein í klaustrinu fræga í Lindisfarne. Meðal annars bein af skjaldböku og geirfugli, hinum útdauða sjófugli.
„Við erum að gera merkar uppgötvanir hérna. Bæði úti á vettvangi fornleifauppgraftarins og á rannsóknarstofunum þar sem við greinum munina,“ segir David Petts, doktor við háskólann við staðarmiðilinn Northumberland Gazette.
Uppgröfturinn er unninn í samstarfi við DigVentures, fyrirtæki sem hópfjármagnar fornleifauppgrefti.
Lindisfarne er eyja við norðausturströnd Englands, stunum þekkt sem Eyjan helga í ljósi þess að hún var helsta miðstöð kristniboðs á Englandi á ármiðöldum. Þann 8. júní árið 793 réðust norrænir menn á klaustrið, brenndu, drápu og rupluðu. Er sá viðburður talinn marka upphaf víkingaaldar.
Rannsóknirnar beinast meðal annars að því að rannsaka dýrabeinin í klaustrinu til þess að sjá hvaða dýr íbúarnir höfðu til matar eða annara nota. Margt hefur komið á óvart í þeirri fjölbreyttu flóru.
„Það kemur ekki á óvart að við höfum fundið bein hefðbundinna húsdýra, nautgripa, sauðfjár og svína, en við höfum einnig sannanir fyrir því að íbúarnir borðuðu mikið af sjávarfangi,“ segir Petts.
Hafa fundist bein af þorski, skötusel, löngu, ál, ýsu, bergsnapa og hákarli svo dæmi séu tekin. Einnig af sjófuglum eins og lunda, mávi og teista. „Á síðasta ári fundum við í fyrsta skipti bein af geirfugli, sem er nú útdauður,“ segir hann.
Sjávarspendýrabein hafa fundist, svo sem af hval og selum. Ekki er ólíklegt að íbúarnir hafi notað af þeim kjötið, fituna og olíuna.
„Líklega er óvæntasti fundurinn þó beinflís úr skjaldböku. Við höldum að þetta sé í fyrsta sinn sem skjaldbökubein finnst í fornleifauppgreftri í Bretlandi,“ segir Petts.
Í uppgreftrinum hafa einnig fundist mannvirki sem eru líklega eldri en klaustrið sjálft. Það eru leifar af stóru ræsi og fráræsisskurði sem liggja undir þeim steinveggjum sem verið er að rannsaka.
Að sögn doktor Petts stendur til að gera aldursgreiningu á þessum mannvirkjum til að sannreyna að um fornaldar mannvirki sé að ræða.