fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Erfðaskrá varð til þess að sambúðarkona stefndi lífeyrissjóð eftir að séreign var greidd út til barna hins látna

Ritstjórn DV
Föstudaginn 6. október 2023 13:00

Héraðsdómur Reykjavíkur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður nokkur lést á árinu og skildi eftir sig séreignalífeyrissparnað sem hann hafði safnað hjá Almenna lífeyrissjóðnum. Börn hins látna leituðu til sjóðsins eftir að fá innistæðuna greidda út og varð sjóðurinn við þeirra beiðni. Skömmu síðar hafði sambúðarkona hins látna samband við sjóðinn til að inna eftir greiðslu til sín í samræmi við erfðaskrá. Sjóðurinn tilkynnti konunni að innistæðan hefði þegar verið greidd út til barna hins látna, skylduerfingja, og ætti hún ekki tilkall til greiðslunnar. Konan sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur sjóðnum þar sem hún krafðist þess að réttur hennar til hlutdeildar í innistæðunni yrði viðurkenndur.

Þegar allt kom til alls taldi dómari í málinu að konan hefði ekki lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins heldur væri hún í raun að leggja fram svokallaða lögspurningu. Með öðrum orðum að hún hafi borið álitaefni fyrir dómstóla til þess eins að fá þá til að túlka tiltekið lagaákvæði, án þess að slík túlkun hefði í raun einhverja þýðingu fyrir hana sjálfa. Málinu var því vísað frá, en úrskurðurinn vekur þó athygli á stöðu bréferfingja hvað séreign varðar, þó svo að hér sé ekki um fordæmisgefandi úrlausn að ræða.

Greitt til barnanna og sambúðarkonan kemur að lokuðum dyrum

Hinn látni og konan voru í óvígðri sambúð. Til að gæta hagsmuna sinna höfðu þau gert með sér svonefndan sambúðarsamning sem og sameiginlega erfðaskrá. Sambúðarsamningur sagði að fasteign sem þau höfðu keypt væri sameign þeirra í jöfnum hlutum og að þau bæru sameiginlega ábyrgð á fasteignaláni. Auk þess væri innbú sameign.

Við sama tilefni gerðu þau erfðaskrá þar sem sagði að ef maðurinn félli fyrr frá þá fengi konan arf að fjárhæð 30 milljónum. Það langlífara af parinu myndi erfða sem næmi þriðjung í sameiginlegum eignum þeirra tveggja og hefði rétt til að búa áfram í fasteign þeirra svo lengi sem það gengi ekki í sambúð eða hjónaband.

Eftir að maðurinn lést var skipaður skiptastjóri í dánarbúi hans, en skiptum er ekki lokið. Börn hins látna leituðu í mars á þessu ári til Almenna lífeyrissjóðsins sem greiddi þeim út séreignina á þeim grundvelli að þau væru lögerfingjar hins látna. Tæpri viku síðar hafði sambúðarkonan samband við sjóðinn og fékk upplýsingar um þessi málalok að sjóðsins hálfu. Hún andmælti og rakti að samkvæmt erfðaskrá væri hún erfingi að þriðjungi eigna mannsins. Því hefði sjóðnum borið að greiða henni það hlutfall. Sjóðurinn mótmælti því og vísaði til þess að í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, komi fram að erfingjar samkvæmt erfðaskrá eigi ekki tilkall til séreignarinnar ef til staðar eru skylduerfingjar, þ.e. ef hinn látni var giftur eða átti börn.

Ósammála um túlkun umþrætts ákvæðis

Þegar þarna er komið við sögu er ljóst að hér var deilt um orðalag sem má finna í eftirfarandi ákvæði:

„Deyi rétthafi áður en innistæða er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innistæðan til dánarbúsins.“

Sambúðarkonan vildi meina að í ákvæðinu kæmi skýrt fram að innistæða ætti að skiptast á milli erfingja. Þar með talið erfingja samkvæmt erfðaskrá. Sjóðurinn horfði þó á seinni málsliðinn og taldi ljóst að bréferfingi gæti ekki fengið af innistæðunni nema hún rynni í dánarbúið, þ.e. aðeins ef ekki væri fyrir að fara maka samkvæmt hjónabandi eða börnum. Vísaði sjóðurinn máli sínu til stuðnings bæði til túlkunar Hæstaréttar og Fjármálaeftirlitsins á þessum umþrætta ákvæði.

Um þetta ákvæði sagði Hæstiréttur í dómi sem féll í júní árið 2010: „Lokamálsliður hennar [málsgreinarinnar] tekur af tvímæli um að innistæðan renni einungis til dánarbús hins látna rétthafa hafi hann ekki látið eftir sig maka eða barn“. Hæstiréttur tók fram að hér væri um réttindi að ræða sem hefðu framfærslueðli, þ.e. séreign væri ætlaða að framfæra rétthafi og eftir andlát hans, skylduerfingja. Dánarbú ætti með réttu að taka við öllum réttindum og skyldum, það væri meginreglan. Hær væri því kveðið á um undantekningu sem grundvallaðist á eðli réttindanna, þ.e. að gæta hagsmuna skylduerfingja. Þar sem um undantekningu er að ræða væri því ekki hægt að gefa ákvæðinu rýmri merkingu en orðalag bæri með sér.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Ísland hefur gefið upp að skipta beri innistæðu samkvæmt reglum erfðalaga til eftirfarandi erfingja: Hjónabandsmaka, barna og kjörbarna í gegnum ættleiðingu.

Með tilliti til ofangreinds taldi sjóðurinn ljóst að sambúðarkonan hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls. Hún ætti aðeins tilkalla til hlutdeildar í innistæðunni ef hún rynni inn í dánarbúið. Þessi innistæða hafi ekki gert það þar sem skylduerfingjum var fyrir að fara. Væri vafi um túlkun á ákvæðinu umþrætta þá væri það skiptastjóri dánarbúsins sem ætti í raun að höfða mál, ekki sambúðarkonan, en jafnvel ef hún hefði unnið mál þetta þá hefði það aðeins í för með sér að innistæðan færi inn í dánarbúið og þyrfti hún samkvæmt venju að lýsa kröfu sinni í réttindinn þar og skiptastjóri að taka afstöðu. Eins væri búið að greiða innistæðuna út og þar með hefðu réttindi hins látna hjá sjóðnum liðið undir lok.

Sambúðarkonan mótmælti frávísun. Hér væri sjóðurinn að túlka umþrætt ákvæði með röngum hætti. Þar að auki hefði Fjármálaeftirlitið misskilið áðurnefndan dóm Hæstaréttar. Hún hefði rétt á að fá úrlausn um réttindi sín. Engu máli skipti þó sjóðurinn hafi þegar greitt innistæðuna út, enda eigi hann nóg af peningum og gæti alveg borgað henni líka og henni kæmi greiðslan til barna hins látna bara ekkert við.

Ómögulegt að fella dóm

Dómari í málinu rakti að þar sem innistæðan hefði verið greidd út stæði ómöguleiki því í vegi að hægt væri að taka kröfu sambúðarkonunnar til greina. Engu máli skipti hvort lífeyrissjóðurinn hefði tök á því að greiða henni eða ekki. Áralöng dómvenja sé fyrir því að þegar því réttarástandi er lokið sem krafa lýtur að, verði ekki frekar af máli og beri að vísa því frá þar sem dómstólar leysi ekki úr lögspurningum án tengsla við tilteknar kröfur. Dánarbúið væri undir opinberum skiptum og því augljóst að skiptastjóra þyrfti að hafa með í ráðum í málarekstri sem þessum. Sá sem á erfðatilkall samkvæmt erfðaskrá eigi ekki beina kröfu heldur ber að lýsa kröfu sinni fyrir skiptastjóra. Hér hefði betur farið ef konan hefði freistað þess að fá réttindi sín viðurkennd með því að leggja málið fyrir skiptastjóra. Hún ætti því ekki lögvarða hagsmuni og óhjákvæmilegt annað en að vísa málinu fram.

Eftir stendur að með úrskurði um frávísun tekur dómari ekki beina afstöðu til álitaefnisins, þ.e. hver er staða bréferfingja hvað varðar innistæður í séreignasjóði. Af úrlausn Hæstaréttar í sambærilegu máli og túlkun Fjármálaeftirlitsins að dæma má þó ráða að bréferfingi þurfi að bíta í það súra epli að horfa á eftir innistæðum sem þessum, sé skylduerfingja fyrir að fara. Til áminningar eru skylduerfingjar þeir sem ekki er skylt að arfleiða, þ.e. hjónabandsmaki og börn. Ef slíkum erfingjum er fyrir að fara má arfleifandi ekki ráðstafa nema þriðjungi eigna sinna með erfðaskrá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“

Haukur afplánar 5 ára dóm og segist ranglega sakaður um tilraun til manndráps – „Af hverju er mér sleppt daginn eftir og ég labba frjáls í eitt ár?“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Í gær

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
Fréttir
Í gær

Rýmingarreitirnir á Austurlandi

Rýmingarreitirnir á Austurlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sælukot kærir Heilbrigðiseftirlitið fyrir „hóflausa beitingu valds“ – Létu loka leikskólanum vegna músagangs

Sælukot kærir Heilbrigðiseftirlitið fyrir „hóflausa beitingu valds“ – Létu loka leikskólanum vegna músagangs
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“