fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Sigríður nefnir sláandi dæmi: „Mamma og pabbi segja að þú sért að ljúga“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 5. október 2023 08:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ansi hrædd um að flest það fullorðna fólk sem dreifir áróðri gegn trans fólki, hinsegin fræðslu og Samtökunum ´78 átti sig ekki á því hvað það er að gera,“ segir Sigríður Birna Valsdóttir, fjölskyldumeðferðarfræðingur og teymisstýra ráðgjafarþjónustu Samtakanna ´78.

Sigríður skrifaði grein sem birtist á vef Vísis í gærkvöldi og er óhætt að segja að hún hafi vakið athygli. Í greininni, sem ber yfirskriftina Leyfum börnum að vera börn, skrifar Sigríður um orðræðuna í íslensku samfélagi og segir hún dæmi um að trans börn á grunnskólaaldri hafi að undanförnu lent í að vera kölluð barnaperrar og sökuð um lygar af skólafélögum sínum.

Hefur hitt hundruð foreldra

„Ég er ráðgjafi hjá Samtökunum ‘78. Síðustu þrettán árin hef ég hitt hundruð foreldra. Þessir foreldrar hafa leitað til mín vegna þess að börnin þeirra pössuðu ekki inn í kynjaboxin eða hreinlega héldu því fram að þau tilheyrðu ekki því kyni sem þeim var úthlutað við fæðingu. Flest þessara barna eru hinsegin í dag, mörg eru trans en nokkur eru ekki á lífi,“ segir hún.

Sigríður segir að fólk tali um að vernda börnin, vernda börnin fyrir hinsegin fræðslu, vernda þau fyrir „transvæðingu“ og vernda þau fyrir kynfræðslu.

„Ég er nokkuð viss um að mikill meirihluti þeirra sem taka undir þessar staðhæfingar og dreifa efni sem heldur þeim á lofti gerir sér enga grein fyrir því hvað þau eru að gera né hvaða afleiðingar það hefur. Orð hafa alvöru afleiðingar,“ segir Sigríður sem hefur mikla reynslu af þessum málaflokki.

Útilokun, áreiti og einelti

„Í mörg ár talaði ég við börn og unglinga um útilokun, einelti, fordóma og mikilvægi þess að setja sig í spor annarra og að bera virðingu fyrir öðrum þó við séum ólík, með ólíkar skoðanir og veljum ólíkar leiðir. Eftir að hafa farið yfir það hversu illa börnum getur liðið sem lenda í útilokun, áreiti og einelti í skólanum þá sagði ég yfirleitt: „Ég veit að ekkert ykkar hér vill taka þátt í því að einhverjum líði svona illa.“ Undantekningarlaust þá samþykktu þau það, en svo fórum við yfir hvernig þau gætu verið að ýta undir vanlíðan annarra án þess að átta sig á því.“

Sigríður segist óttast að flest það fólk sem dreifir áróðri, til dæmis gegn trans fólki og hinsegin fræðslu, átti sig ekki á því að það er að dreifa upplýsingum sem ýta undir andúð á stórum hópi fólks, andúð á alvöru fólki, börnum á öllum aldri, foreldrum þeirra og fjölskyldum.

„Umræðan í samfélaginu á sér nefnilega ekki stað í tómarúmi. Hún nær til barnanna og inn í skólana. Trans börn á grunnskólaaldri hafa undanfarið lent í því að vera kölluð barnaperrar og sökuð um lygar af bekkjarfélögum sínum. Áreiti og einelti gagnvart hinsegin nemendum á grunn- og framhaldsskólaaldri hefur aukist gífurlega og mörg upplifa sig mjög óörugg í skólanum. Það er erfitt fyrir barn að svara þegar orðin „mamma og pabbi segja að þú sért að ljúga“ fylgja áreitinu. Það er erfitt að vera barn þegar sjálfsmynd þín er sífellt dregin í efa og ekki gefið að öll börn ráði við það verkefni.“

Leyfum börnum að vera börn

Sigríður bendir á að trans börn hafi alltaf verið til og munu alltaf vera til. Áður fyrr hafi verið algengara að fólk væri eldra, enda yfirleitt þaggað harkalega niður í því ef það opnaði sig á barnsaldri.

„Í dag vitum við betur. Við vitum að ef börn sýna ódæmigerða kyntjáningu á unga aldri þá er best að leyfa þeim að vera þau sjálf, leyfa þeim að vera börnin sem þau vilja vera. Að þau fái að leika sér og tjá sig eins og þau vilja. Það getur enginn sagt með vissu hvort barn er trans nema barnið sjálft eða hvort upplifun þess og tjáning sé aðeins tímabil. Það er ekki hættulegt að leyfa barni að tjá sig eins og það vill, leyfa því að stjórna hári, fötum, leikjum og leikföngum. Eins er ekki hættulegt að kalla barn því nafni sem það kýs eða nota þau fornöfn sem það velur sér sjálft. Allt er þetta afturkræft, öllu þessu er hægt að breyta til baka ef upplifun barnsins er aðeins tímabil,“ segir Sigríður sem bætir við að það sé hins vegar hættulegt að þagga niður í barni.

„Mig langar að hvetja fólk til að muna að stundum stuðlum við að vanlíðan annarra án þess að ætla okkur það. Öll umræða um að „vernda börnin“ hefur snúist í andhverfu sína, þar sem fólk telur sig geta ráðist á sum börn og sumar fjölskyldur undir því yfirskini að um einhverja hugmyndafræði sé að ræða, en ekki líf fólks. Ég er hrædd við afleiðingarnar, ég er hrædd um börnin sem ekki hafa komið fram, börnin sem ekki hafa stuðning, börnin sem fá ekki leyfi til að vera börnin sem þau eru. Leyfum öllum börnum að vera börn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri