fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Þórólfur er heimilislaus þrátt fyrir tekjur og eigin rekstur – „Þetta á ekki að vera svona“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 4. október 2023 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórólfur Júlían Dagsson, fyrrverandi oddviti Pírata í Reykjanesbæ, segir ástandið á húsnæðismarkaði óboðlegt. Fleiri og fleiri finni sig í þeirri stöðu að vera heimilislausir, þrátt fyrir að hafa tekjur og því með tök á því að leigja eða eiga. Svo virðist sem stjórnvöld hafi ákveðið að loka augunum, stinga fingrum í eyrun og hunsa vandann. Þórólfur hefur því stofnað hóp fyrir heimilislausa á Facebook til að efla samstöðu í hópnum og til að vekja athygli á vandanum og setir tíma til kominn að ráðamenn hér á landi gyrði sig í brók. 

Sjálfur er Þórólfur án heimilis og hefur verið síðan í vor. Síðan þá hefur hann leitað að heimili fyrir sig, kærustu sína og dóttur, en ekki haft erindi sem erfiði.

„Maður bjóst svo við því að þegar ferðamannastraumurinn í sumar færi að minnka, þá myndi eitthvað losna. Ég er búinn að senda umsóknir á nánast allar íbúðir, en það eru svo margir sem sitja um hvert leiguhúsnæði. Kærastan mín tók við af mér í síðasta mánuði, að sækja um, því ég hélt að kannski væri ég að gera eitthvað vitlaust. Svo eftir þrjár vikur var hún bara orðin hálf þunglynd.“ 

Þjóðskrá gefur skakka mynd af vandanum

Þar sem Þórólfur er heimilislaus hafði hann samband við Þjóðskrá og spurði hvernig hann ætti að skrá lögheimili sitt, þegar hann á ekkert heimili. Þar mættu honum þau svör að ekki væri hægt að skrá fólk heimilislaust og var Þórólfur spurður hvort hann ætti ekki einhvern aðstandanda sem hann gæti skráð lögheimili sitt hjá. Þetta vakti furðu Þórólfs og veltir hann því fyrir sér hvort að þetta utanumhald, eða skortur á því, hjá Þjóðskrá gefi ekki skakka mynd af þeim vanda sem heimilisleysi er í dag.

Þórólfur hugsar þó í lausnum og fyrir þremur mánuðum keypti hann sér húsbíl til að leysa vandann tímabundið, en rétt er að taka fram að Þórólfur er með eigin rekstur og hefur því tekjur. Húsbílnum lagði hann fyrir utan Víkingaheima í Reykjanesbæ og var bíllinn hálfur yfir göngustíg við litla hrifningu íbúa á svæðinu sem birtu myndir af bílnum og auglýstu eftir að eigandi kæmi og færði hann.

„Þá sagði ég í hálfgerðu gríni að ég væri nú heimilislaus og bað fólk að vera ekki að taka myndir af heimili mínu. Svo þegar ég var beðinn um að færa bílinn því hann væri yfir göngustíg bauð ég viðkomandi velkominn á mótmæli heimilislausa mannsins. Einhvern veginn þótti fólki eðlilegra að hægt væri að ganga óhindrað um göngustíg en að einhver hefði samastað. Og svona er þetta í þessari stöðu. Maður upplifir að maður sé bara fyrir og þessi upplifun kveikti í mér. Ég hef verið í hinum ýmsu baráttumálum í gegnum tíðina og tekið ýmislegt að mér. Ég hef það á tilfinningunni að ríkisstjórnin ætli ekkert að gera í þessum málaflokk, ekki sveitarfélögin heldur.“

Fyrr í sumar freistaði Þórólfur þess að kaupa iðnaðarbil og koma sér þar upp heimili. Þórólfur átti fyrir útborgun en málið strandaði á því að hann er á vanskilaskrá. Því er ekkert annað í boði en húsbíllinn góði, en Reykjanesbær bíður ekki upp á marga kosti til að koma slíkum bíl fyrir með aðgengi að rafmagni.

Fólki í neyð att saman

Þórólfur segir að vandinn eigi það til að falla í skuggann af málefnum hælisleitenda í Reykjanesbæ. Það er hans upplifun að stjórnvöld geri í því að ýta undir gagnrýni og umræðu um þann hóp til að í raun etja þeim saman við aðra hópa í samfélaginu, svo sem heimilislausa, og varpa fram þeirri mynd að án hælisleitenda væri enginn vandi.

„Þetta á ekkert að vera svona. Ráðamenn og stjórnvöld samanstanda af fullorðnu fólki sem getur ekki hagað sér eins og smákrakkar. Það er kominn tími til að einhver setji þeim stólinn fyrir dyrnar og segi þeim að gjöra svo vel að gera eitthvað í þessu ástandi.“

Þegar Þórólfur var sjálfur í stjórnmálum, sem hann hefur nú hætt afskiptum af, kynnti hann sér leigumarkaðinn hjá nágrannaþjóðum okkar. Þar sé mun meira um óhagnaðardrifin leigufélög, betra framboð og meiri stöðugleiki á leigumarkaði. Þetta sé annað hér á landi, en varla sé hægt að tala um óhagnaðardrifin leigufélög. Til dæmis sé Alma leigufélag að mergsjúga leigjendur sína, framboð á leiguhúsnæði sá alltof lítið og eigendur leiguhúsnæðis séu sífellt að verða færri þar sem eignir safnast á færri hendur. Mörgum eignum sem með réttu ættu að vera komnar á sölu sé haldið frá markaðnum til að gæta þess að húsnæðisbólan lifi áfram góðu lífi. Þetta hafi byrjað í hruninu þegar bankarnir sópuðu til sín eignum og sátu á þeim eins og gæs á gulleggi til að passa að húsnæðisverð færi nú örugglega ekki að lækka.

Þórólfur segist hafa stofnað áðurnefndan hóp til að ná utan um fjölbreyttan hóp þeirra sem eru heimilislausir í dag. Þetta sé fólk í allskonar stöðum og aðstæðum. Til dæmis fólk eins og hann, með tekjur en hafi ekki kost á íbúðaláni og bjóðist ekkert til leigu.

„Fyrsta skrefið er að safna saman fólki og næsta skref er að skipuleggja aðgerðir. Það er þörf fyrir að rödd fólksins sem er í þessari stöðu fái að heyrast og það er þörf á því að stíga inn í umræðuna svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki að etja okkur saman við hælisleitendur endalaust. Þetta er ógeðslegt. Þetta er fullorðið fólk og það á ekki hegða sér svona. Hið opinbera fær fjármagn frá alþjóðastofnunum fyrir að taka á móti hælisleitendum og fyrir það er vel hægt að byggja húsnæði fyrir þennan hóp. Þess í stað er þessu fólki teflt fram sem peðum. Þetta að geta att saman fólki í neyð til að fría sig ábyrgðinni á vandanum er bara mjög illa gert og þetta fólk á bara að skammast sín og má gjöra svo vel að fara að gera eitthvað í málum leigjenda á Íslandi því þetta gengur ekki lengur.“ 

Sjálfur segist Þórólfur ekkert skammast sín fyrir stöðu sína. Skömmin hvíli á hinu opinbera, en ekki þeim hóp sem sinnuleysi þeirra bitnar á.

Hópur fyrir heimilislausa Íslendinga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Í gær

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu