Coli gerlar fundust við reglubundið eftirlit vatnsveitunnar á Borgarfirði eystra. Ekki er vitað hvaðan mengunin kemur en frekari rannsóknir standa yfir.
„Það er búið að beina þeim tilmælum til íbúa að sjóða neysluvatn á meðan við tökum fleiri sýni og sjáum hvort þetta sé yfirstaðið,“ segir Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Á Borgarfirði búa um 130 manns.
Coli gerlar eru gerlar sem koma úr saur blóðheitra dýra. Það getur verið hættulegt að innbyrða þá og einkenni sýkingar geta verið blóðugur niðurgangur, slæmir kviðverkir og uppköst. Fylgikvillar geta verið nýrnabilun og fækkun blóðflagna, einkum hjá börnum yngri en 10 ára.
„Þetta er eitthvað sem getur alltaf komið fyrir. Þess vegna erum við með reglubundið eftirlit með vatnsveitum og fylgjumst með vatnsgæðum,“ segir Lára.
Verið var að vinna við vatnsveituna daginn sem sýnið var tekið, á þriðjudaginn í síðustu viku, það er 26. september. „Við erum að vona að það útskýri þessa mengun,“ segir Lára.
Búið er að taka annað sýni úr vatnsveitunni og verið er að bíða eftir niðurstöðunum úr því. Ef það sýnir áfram coli gerla mengun verður farið að leita að orsökum mengunarinnar og farið í að hreinsa kerfið.