Ekkert hefur spurst til Magnúsar síðan 12. september síðastliðinn, en þann dag átti hann bókað flug frá karabísku eyjunni til Frankfurt í Þýskalandi. Hann skilaði sér aftur á móti ekki í flugið.
RÚV greinir frá því í dag að farangur Magnúsar sé nú á leið til Íslands og þá njóti fjölskylda hans liðsinnis lögfræðings í Dóminíska lýðveldinu. Sá hafi fullvissað fjölskylduna um að málið sé rannsakað af fullum þunga og á meðan sé fjölskylda Magnúsar beðin um að halda sig til hlés.
Nokkuð hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum í Dóminíska lýðveldinu. Listin Diario greindi frá því í gær að á upptökum sem lögregla skoðaði hafi Magnús sést yfirgefa flugvöllinn og stíga upp í óþekkta bifreið sem var síðan ekið á brott. Óvíst er hvert bifreiðin fór. Ekki kemur fram hvort Magnús hafi farið upp í bílinn sem farþegi eða sem ökumaður.
Er lögregla sögð hafa leitað Magnúsar á hótelum og spilavítum á ferðamannastöðum eins og Boca Chica, Juan Dolio og La Romana en án árangurs. Þá hafi verið skoðað hvort Magnús hafi farið úr landi í gegnum aðra flugvelli í landinu en ekkert bendi til þess.
Magnús kom til Dóminíska lýðveldisins þann 3. september síðastliðinn frá Madríd á Spáni.
Auk þess að njóta liðsinnis lögfræðings hefur fjölskylda Magnúsar notið stuðnings utanríkisráðuneytisins og alþjóðadeildar lögreglunnar. Þá sagði systir Magnúsar, Rannveig Karlsdóttir, í samtali við DV um miðjan september að æskuvinir Magnúsar hefðu verið fjölskyldunni stoð og stytta.
„Þeir hafa lagt nótt við dag upp á síðkastið við að hringja, skrifa, reyna að reikna út ferðir og fleira. Það hefur verið okkur ómetanleg aðstoð,“ sagði Rannveig meðal annars.
DV ræddi á dögunum við vin Magnúsar sem sagði að hann hefði skilið farangurinn sinn eftir á flugvellinum og sést með vegabréf og farmiða þegar hann yfirgaf flugstöðvarbygginguna. „Þetta var látlaus farangur, ekki taska á hjólum,“ sagði vinurinn og bætti við að lögregla hefði meðal annars skoðað mögulegar vísbendingar í farangri hans, en þar var meðal annars að finna kvittanir og heimilisföng.
Horfinn síðan 10. september – Lögregla rannsakar mögulegar vísbendingar í farangri Magnúsar