250 íbúar í Akrahverfi í Garðabæ hafa skrifað undir lista gegn skipulagi tengdu fyrirhuguðu heilsuhverfi í Arnarlandi. Hið nýja hverfi verður tengt inn í Akrahverfi og Borgarlínan mun keyra í gegnum bæði hverfin.
„Við íbúar Akrahverfis í Garðabæ mótmælum harðlega fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi hverfisins þar sem umferð frá Arnarlandi er beint inn í hverfið okkar um undirgöng undir Arnarnesveg,“ segir í upphafi tilkynningar sem fylgir undirskriftalistanum.
Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 250 manns skrifað undir listann. Fresturinn til að skila inn athugasemdum var framlengdur þangað til í dag, 2. október.
„Jafnframt mótmælum við eindregið hugmyndum um að borgarlína liggi um undirgöngin og annarri akandi umferð undir Arnanesveg yfir í Akrahverfið. Fyrirhugaðar breytingar eins og þær hafa verið kynntar munu að okkar mati skapa öngþveiti í umferðarmálum á einu götunni inn og út úr hverfinu og skerða verulega gæði Akrahverfis. Við skorum á bæjaryfirvöld að leita skilvirkari og öruggari lausna fyrir umferð til og frá Arnarlandi,“ segir í tilkynningunni.
DV fjallaði um fyrirhugaða uppbyggingu í síðasta mánuði. En í hverfinu, sem mun standa á svokölluðum Arnarneshálsi, eiga að rísa 500 íbúðir, verslun, veitingastaðir og nokkur heilsufyrirtæki. Íbúðirnar eru hugsaðar fyrir fólk 50 ára og eldra.
Auk þess sem íbúar Akrahverfis í Garðabæ hafa miklar áhyggjur af auknum umferðarþunga vegna skipulagsins hafa íbúar Smárahverfis í Kópavogi áhyggjur af umferð og minnkandi útsýni. Skipulagið var aldrei kynnt fyrir íbúum Smárahverfis þrátt fyrir að Arnarland standi þar við hliðina á og skyggi á útsýni yfir Kópavoginn.
Hið nýja hverfi verður mjög þétt og þar verða reistar allt að níu hæða byggingar. Mun hverfið því verða mun háreistara en hverfin í kring, það er Smárahverfi, Akrahverfi og Arnarneshverfi.
Arnarland mun einnig hafa mikil áhrif á umferð um Smárahverfi en rúmlega 80 prósent umferðarinnar frá hverfinu mun fara um Fífuhvammsveg.
Garðabær hefur ekki svarað fyrirspurn DV um málið.